30 júlí 2004

Spítalasagan hin síðari

Jæja þá er maður kominn heim aftur. Þar sem maður er ekki nettengdur á "lansanum" þá fylgir með löng skýrsla.
27. júlí 2004

Jæja þá er aðgerðin búinn og þetta var ekkert mál. Ég veit ekki hverju ég kveið svona mikið. Hérna á stofunni með mér er gamall vinnufélagi úr Húsasmiðjunni, Sigurbjörn en við vorum í timbursölunni saman á árunum 76 – 81. Reyndar hafði ég hitt hann á förnum vegi fyrir svona þrem vikum eða svo en hafði þá hvorki séð hann eða heyrt í yfir 20 ár. Eftir því sem ég best veit þá lukkaðist aðgerðin vel en það kemur betur í ljós næstu daga, ég á eftir að ræða betur við Ársæl lækni á morgun. Við herbergisfélagarnir ræddum ástand okkar en það er nokkuð sem almennt er ekki rætt yfir kaffibollum í samræðum manna á milli. Það er kannski ástæða þess að karlmenn draga það í lengstu lög að láta athuga “pípulögnina”. Sigga og Ninna komu hérna áðan þær ætluðu varla að þora að koma í heimsókn, héldu víst að ég lagi hálf rænulaus ennþá en það var nú öðru nær. Ég eyddi þessu fyrsta kvöldi hér á “Lansanum” í það að klippa kvikmynd sem ég tók í sumar þegar við vorum í Køben. Alveg makalaust forrit að mörgu leiti iMovie og ég held að ég eigi eftir að ná góðum tökum á því. Þetta er þolinmæðisvinna og ekkert annað. Afraksturinn fá svo útvaldir að sjá einhverntíma með haustinu. Jæja ekki meira í bili best að fara að sofa.

28. júlí 2004 Þetta var ekki góð nótt, vaknaði upp um tvöleitið með hræðilegan brjóstsviða. Þetta var alveg eins og fyrsta nóttin hérna síðast. Ég fékk einhverja mikstúru við þessu og hún virkaði þannig að á endanum gat ég sofnað.
Vaknaði kl. 07:00 í morgun og gat ekkert sofnað aftur, las Moggan og beið eftir lækninum mínum honum Ársæli. Hann hafði ekkert nema góðar fréttir að færa mér, ég væntanlega losna við legginn á morgun. Skreiddist framúr um tíuleitið og rölti hér um ganga svona til þess að koma meltingarstarfseminni almennilega í gang, það bar lítinn árangur en þetta kemur.
Sigga hringdi áðan var að leita frétta sem voru ekki nema góðar fréttir. Þessum degi hefur verið nánast eytt í tóma leti, reyndar kláraði ég að gróf klippa videomyndina og ætla að fínissera hana þegar ég kem heim. Það er óhætt að segja að mamma gamla sé að verða “smá” rugluð hún hringdi í mig áðan og sagðist ætla að koma. Nú ég beið eftir henni í u.þ.b. klukkutíma og aldrei kom hún. Sú gamla var að hringja rétt í þessu og hafði þá farið vestur á Landakotsspítala en þar kannaðist náttúrulega engin við að ég væri þar. Skildi sú gamla hafa farið vestureftir af gömlum vana eða hvað ekki veit ég það, það eru nú ekki nema 40 ár síðan amma dó. Þetta var illa sagt en hvað á maður að halda. Annars hef ég ekki verið í miklu skriftarstuði í dag og eftirtekjan því heldur rýr. Þessi dagur hefur verið heldur tilbreytingarlaus en vonandi verða þeir ekki margir fleiri. Nóg að sinni og höldum áfram á morgun.

29. júlí 2004 Það er aldrei flóafriður á þessum spítölum, vakinn upp kl. 06:00 “ég er kominn til að taka legginn” sagði hjúkkan og viðhafði snör handtök og frelsaði “fermingarbróðurinn”. Þá hlýtur að líða að því að þeir fari að henda manni út héðann. Ég á reyndar eftir að hitta lækninn en þeir hljóta að fara að birtast fljólega á hefðbundnum stofugangi. Jæja þá eru þeir búnir að koma og ef allt gengur vel í dag má ég fara héðan á morgun. Þannig að ég verð bara að treysta á guð og lukkuna með það. Skellti mér í sturtu og er eins og nýr maður á eftir. Mikið er ég feginn að það er svoddan skítaveður úti, þá sættir maður sig betur við að eyða deginum hér en ella. Búinn að vera eins og jójó á þið vitið og ekkert gengur, og ég að verða verulega svartsýnn. Best að bíða og sjá hvað læknarnir segja döö.
Nú er ég ekki hress - leggurinn kominn í aftur og verður að vera næstu vikur kannski 3-4, það verður bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Sigga var ekki hrifin þegar hún frétti þetta. Það er eins og það er. Ræddi við Geir lækni hér um horfur framundan og gerði hann mér grein fyrir þeim. Eftir það samtal er ég nú ekki allt of bjartsýnn. Jæja, best að hætta þessu svartsýnisrausi og hugsa um eitthvað annað.

30. júlí 2004 Svaf fjandanum verr í nótt og var því ansi slæptur þegar ég vaknaði um kl. sjö í morgun. Það var þó bót í máli að ég var á leiðinni heim og var það eini ljósi punkturinn.

Kvaddi herbergisfélaganna upp úr hádeginu og hélt út í rokið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home