26 júní 2005

Leikum núna - leiklistarhátíð BÍL

Það sem fer hér á eftir eru nokkrar hugleiðingar sem ég skrifaði fyrir norðan en við vorum að koma í bæinn, þessi vika hefur verið hreint stórkostleg, mikið að gera og þeir sem ég var hugsanlega búinn að lofa að heimsækja á Akureyri eru beðnir velvirðingar.
Leikum núna - dagur 1
Þá erum við hjónakornin komin til Akureyrar til að taka þátt í alþjóðlegri leiklistarhátíð áhugamanna. Hátíðin stendur yfir dagana 22. til 26. júní.
Við lögðum af stað úr Mosfellsbænum um kl. 15:30 og vorum komin til Akureyrar rétt um kl. 21:00. Við gerðum hálftíma stopp á leiðinni.
Þegar til Akureyrar var komið var fyrst komið við í Húsinu Hafnarstræti 73 en þar þurftum við að sækja gögn vegna hátíðarinnar. Passa inn á allar sýningar, miða á lokahóf sem verður í Freyvangi á laugardag.
Við erum ekkert farinn að sjá af félögum okkar úr "Halanum" en við verðum 6 alls hér á Akureyri.
Upp úr kl. 22:30 var hringt í okkur og spurt "var ekki partíið hjá þér"? og voru það hinir "Halarnir" sátum við síðan hér nokkuð fram eftir kvöldi að spjalli og smá "drykkju".
Leikum núna dagur 2
Þá erum við búinn að sjá þrjár leiksýningar í dag. Það þykir nokkuð gott. Dagurinn byrjaði með morgunmat. Síðan var farinn smá ferð niðrí bæ, en ég var eitthvað slappur í magnanum svo við fórum heim aftur. Við fórum síðan aftur niðrí bæ og sáum formlega setningu leiklistarhátíðarinnar. Fyrsta sýning dagsins var svo Konur í sýningu Jonava leikfélagsins frá Litháen. Þetta var stórskemmtileg sýning þó svo að við skildum ekki baun í textanum. Leikur hópsins var stórkostlegur á ýmsan hátt og útfærslur á atriðum stórskemmtilegar.
Næsta sýnig var svo Dýragarðssaga (Zoo Story) eftir Edward Albee í flutningi Leikfélags Hafnarfjarðar. Stórgóð sýning hjá þeim félögum Gunnari Birni og Guðmundi Lúðvík.
Kvöldið var svo endað á því að fara að sjá Patataz eftir Björn M. Sigurjónsson í flutningi Hugleiks. Þetta fannst mér vera mögnuð sýning vel útfærð og mikill og þarfur boðskapur.
Leikum núna dagur 3
Þessi dagur var tekin tiltölulega snemma með morgunverði. Síðan var farið niðrí Hús og náð í þá miða sem vantaði á þær sýningar sem við höfðum áhuga á að sjá.
Fyrsta sýning dagsins var Taktu lagið Lóa eftir Jim Cartwright í sýningu Freyvangsleikhússins. Þetta var flot sýning. Næsta sýning var svo 40% af engu í flutningi Cirkity Gravikus frá Gautaborg í Svíþjóð. Þarna ægði öllu saman þögult leikhús, tónlist, dans og sirkus. Stórgóð skemmtun, en útfærslur ekki alveg gallalausar. Það var eins og stundum vissu þau ekki alveg hvað þau væru með í höndunum. Eins gæti ég trúað að þau hafi ekki skoðað næganlega vel það rými sem þau höfðu til að sýna.
Leikum núna dagur 4
Þetta hefur verið hálfgerður letidagur, en þó voru tvær sýningar í dag. Fyrri sýningin var Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson í flutningi Leikfélags Hörgdæla. Mér fannst þeim takast vel alla vega skilaði stressið sér vel til áhorfenda. Seinni sýningin var svo Davíð Oddsson superstar í flutningi Leikklúbbsins Sögu. Æ ég veit ekki hvað ég á að segja um þá sýningu. Nýting á leikrými var mjög skemmtilega útfærð, en mér fannst höfundur (sem er leikarahópurinn) stundum skjóta yfir markið í ádeilu sinni á íslenskt samfélag. Kannski er maður bara orðin svona gamall og íhaldssamur ;-) Það er samt gott að vita að enn er til pólitískt leikhús á Íslandi. Við slepptum reyndar einni sýningu þennan dag en það var sýning Hugleiks og Leikfélag Kópavogs á Memento Mori, sem við vorum búinn að sjá í Kópavogi fyrr í vetur. Það er hreint mögnuð sýning eitthvað sem situr algjörlega fast í minningunni.
Leikum núna dagur 5
í dag var byrjað snemma, með því að fara á fyrirlestur Berndt Ogrodnik um leikbrúður en hann var haldinn í Myndlistarskólanum á Akureyri. Mjög fróðlegur fyrirlestur og skemmtilegur. Næst lá fyrir að ná í nokkrar nauðsynjar fyrir kvöldið áður en farið væri á gagrýnifund dagsins.
Þá var komið að fyrri leiksýningu dagsins sem var Birdy eftir Naomi Wallace í flutningi Leikfélags Hafnarfjarðar. Í einu orði sagt fannst mér þetta mögnuð sýning. Þessu næst var farið í einum spretti á næstu sýningu sem var Í allra kvikinda líkií flutningi Leikfélag Kópavogs, sýning byggð á sögum úr VIZ Þetta fannst mér skemmtilega einföld og vel útfærð sýning í alla staði.
Í kvöld verður svo lokahóf í Freyvangi, sýning á morgun og síðan haldið heim á leið. Nánar um það á morgun kannski.
Hvað hefur þessi hátíð svo skilið eftir sig? Jú, hún hefur sýnt okkur hvað hægt er að gera, hefur hópur eins og okkar verið á réttri leið? Ég veit það hreint ekki.
Leikum núna dagur 6
Ég var rifin upp úr minni þynku snemma í morgun, "við þurfum að fara ganga frá" sagði betri helmingurinn. Jæja, við í það en ég heimtaði að fá að liggja klukkutíma í viðbót í bælinu. Tiltölulega fljótlegt var að ganga frá dótinu útí bíl og skila af sér lyklum.
Þennan dag var aðeins ein sýning, en það var sýning leikfélags Selfoss á verki sem hópurinn samdi í samvinnu við leikstjórann og heitir Náttúran kallar þar sem teknar eru fyrir útilegu venjur landans. Þessi sýning náði enganveginn til mín allt of mikið unnið uppúr "klisjum" og einhvernveginn fannst mér ekki nóg kjöt á beininu. Aðrir áhorfendur skemmtu sér hið besta sýndist mér.
Við fórum síðan strax af stað að lokinni sýningu þannig að við vitum ekki hvað gagnrýnendum hátíðarinnar fannst. Kannski má lesa það á leiklist.is ?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home