03 september 2004

Sjöundi dagur ferðarinnar

Dagurinn var tekinn snemma allir rifnir upp á þið vitið eld snemma. Húsið þrifið hátt og lágt þetta var svo fljótgert að við lögðum af stað um 10:45. Stefnan var tekin í austur en því miður var grenjandi rigning þegar komið var í Ljósavatnsskarðið. Mér var hætt að lítast á blikuna. Við héldum förinni áfram og komið að Mývatni í grenjandi rigningu. Ég var heldur skúffaður yfir þessu öllu. Áfram var svo haldið og stefnan tekin á Möðrudal. Þegar þangað var komið byrjaði aðeins að birta til. Samt birti ekki nóg til að við sæjum Herðubreið og fannst mér það helst til súrt. Þegar ég var á Möðrudal síðast fyrir 10 árum þá var þar svo gott veður að ég gat verið í stuttbuxum sem ég held að ég hafi ekki farið í síðan eða þannig sko.
Við fengum okkur kaffi og samloku í Fjallakaffi. Síðan var haldið til baka upp á aðalveginn sem reyndar var verið að vinna í.

Þar sem við höfðum nægan tíma við áttum ekki að mæta hjá Laufeyju (systur á Egilsstöðum) fyrr en um kvöldmatarleitið þá ákváðum við að fara til Vopnafjarðar. Þar vorum við í alveg dásamlegu veðri. Leiðin lá síðan yfir Hellisheiði (eystri) og var það alveg hreint stórkostlegt að fara þá leið. Niður á Egilsstaði náðum við svo um sexleitið og var tekið á móti okkur af höfðingskap eins og við var að búast. Fengum sérrétt hússins að borða (uppskriftin ekki gefin upp).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home