05 september 2004

Áttundi dagur ferðarinnar

Lagt var af stað um 11:00 frá Egilsstöðum og ferðinni heitið að Kárahnjúkavirkjun. Fyrst var samt stoppað í Hallormsstaðaskógi en þar hafði okkur verið sagt frá óvenjulegum berjum nefnilega Hindberjum. Laufey sagði okkur lauslega hvar þau væri að finna og eftir smá leit römbuðum við á staðinn. Urðum við þrjú þ.e. ég Ninna og Dolli eins og rollur á beit. Fyllt var á augnabliki 4 lítra fata af hindberjum, hrútaberjum og ribsberjum. Þetta varð semsagt allt önnur berjaferð en upphaflega stóð til. Það er haft til marks hverju gott sumar hefur verið að hindberin náðu þroska sem er mjög fátítt. Eftir tínsluna var haldið áfram inn Fljótsdal og lagt í brekkurnar upp á heiði. Fórum síðan eins og leið lá inn að Kárahnjúkum. Þar blasti við andsk.... eyðileggingin og hafði maður ekki getað gert sér í hugarlund hversu stórt þetta allt er í sniðum nema hafa komið í staðinn. Jökla rann samt sakleysisleg niður gljúfrið eitthvað annað en fyrr í sumar. Við vorum mjög heppinn með veður það var bjart þó ekki væri sól. Vel sást í Snæfell og við sáum Herðubreið líka mjög vel eftir allt saman.
Eftir að hafa skoðað framkvæmdir í Kárahnjúkum var lagt af stað aftur til Egilsstaða en við vildum kasta kveðju á Laufey og fjölsk. Emil mágur var reyndar farinn á hreindýraveiðar, nú átti að ná kúnni sem hann misti af um daginn. Eftir að hafa kvatt á Egilsstöðum var haldið af stað og fórum við yfir Öxi og var það þess virði að fara þá leið ekki bara hvað hún er styttri heldur hversu falleg hún er. Ferðinni var heitið á Djúpavog og þaðan átti að fara inní Lón en við gistum á Stafafelli.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home