21 ágúst 2006

Vesturferðin


Þá erum við kominn heim úr ferðinni vestur á firði. Hélt smá dagbók sem ég læt fylgja.

Dagur 1
Lagt var á stað frá Mosfellsbæ upp úr kl. 10:00 og stefnan tekin á Borgarnes. Við erum 5 saman á ferð, ég og Sigga, Dolli og Ninna ásamt Hönnu (móðursystir Siggu). Ninna og Dolli eru saman í bíl en við hin á mínum.
Stoppið í Borgarnesi var stutt og síðan haldið áfram sem leið lá norður eftir. Gert var stutt stopp á Brú og fékk mannskapurinn sér að borða þar af ríkulegu nesti sem þær systur höfðu útbúið. Að loknu áti var haldið áfram norður með vestanverðum Hrútafirði. Farin var sem leið lá í Bitrufjörð og þaðan í Kollafjörð sem ég varð varla var við. Komið var til Hólmavíkur um 15:30. Reyndar þurftum við að stoppa á leiðinni á Litla-Fjarðarhorni til að gefa þeim kellum kost á að “pissa”. Það var húsráðendum þar alveg að meinalausu en þetta reyndist vera sumarbústaðurinn þeirra annað hvort þeirra var ættað frá bænum.
Gistiheimilið sem við erum á er í húsi þar sem allt virðist vera frá því snemma á 6. áratugnum ef ekki eldra. Þær sögðu eftir skoðunarferð að þorpið væri í niðurníðslu.

Dagur 2
Við Sigga komum okkur á fætur um núleitið og vorum fyrst. Dundaði ég mig við að laga kaffi fyrir mannskapinn á meðan ég beið eftir því að þau kæmu á fætur. Siggu tókst að koma þeim á fætur hálftíma síðar. Við lögðum af stað um 10:30 og héldum sem leið lá norður eftir. Förinni var fyrst heitið að Drangsnesi. Ekki gerðum við langt stopp þar en héldum áfram fyrir nesið sem leið lá. Veðrið hélst skapleg enn. Héldum við nú áfram norður eftir og var næsti áfangastaður Djúpavík. Eitt skemmdi mikið fyrir okkur en það var veðrið, en eftir því sem norðar dró þá jókst rigningin. Héldum við sem leið lá norður eftir með litlu stoppi í lítilli vík til að skoða rekavið sem þar lá í hrúgum. Loksins komumst við þó til Djúpavíkur og fengum okkur kaffi þar á hótelinu. Eftir stopp þar héldum við áfram í átt að Gjögri. Það var þó í mínum huga tóm tjara eins og veðrið var því nú rigndi svo mikið að ekkerst sást og það var ekkert annað en auka keyrsla. Hanna skaust í hús þarna á Gjögri og keypti hákarl og harðfisk. Héldum síðan heim á leið í sudda rigningu og komum heim um kl. 18:00.

Dagur 3
Héldum af stað frá Hólmavík upp úr kl. 10:00 og var förinni heitið yfir Steingrímsfjarðarheiði og í Djúpið. Heiðin er ekki nema 21 km og var tillölulega fljótfarinn. Þegar niður hana var komið var ákveðið að fara útí Kaldalón. Héldum þangað sem leið lá og sáum við ekki eftir því veðrið lék við okkur allan tímann. Í Kaldalóni dvöldum við drjúga stund áður en haldið var áfram inn Djúpið aftur og út sunnanvert. Héldum nú inn og út firði hvern á fætur öðrum Ísafjörð, Mjóafjörð, Skötufjörð, Hestfjörð, Seyðisfjörð og komum að lokum í Álftafjörð.
Þegar til Súðavíkur var komið þá var drifið í því að taka dót úr bílunum. Við Dolli fórum síðan í það að þvo þá og tók það okkur drjúga stund. Það var þvílík leirdrulla á þeim og mjög erfitt að ná henni af.
Kvöldinu var síðan eytt í að horfa á leikinn og spila Uno.

Dagur 4
Þennan daginn höfum við verið á flakki, byrjað var á því að fara til Ísafjarðar en mannskapurinn þurfti að komast í sturtu og ákveðið að fara í sundhöllina á Ísafirði. Það tók okkur smá tíma að finna hana og enn lengri tíma að komast að henni. Það tókst nú samt að lokum. Þau skelltu sér í sturtu en ég ekki þar sem ég var búinn að því. Á meðan þau tóku baðið þá skrapp ég í myndatökuleiðangur niður á höfn. Að loknu þessu öllu þá var haldið til Bolungarvíkur.
Í Ósvor var okkur ráðlagt að fara uppá Bolafjall og ákváðum við Dolli að fara þangað upp. Nú við héldum inn í “Víkina” og fengum okkur þar af nestinu á tjaldstæðinu þar. Við Dolli héldum svo á Bolafjallið einir og verð ég að segja að það var toppur ferðarinnar. Við hefðum ekki getað fengið betra veður þar uppi. Fyrst við vorum komnir upp á fjallið var ákveðið að skoða Skálavíkina í leiðinni og gerðum við það. Héldum við síðan aftur til Bolungarvíkur þar sem þær biðu okkar. Næst var ferðinni heitið til Suðureyrar við Súgandafjörð og tók það okkur stuttan tíma. Þar var skoðað það helsta og útsýni yfir fjörðin skoðað frá gamla flugvellinum.
Eftir stuttan stans þar var síðan haldið til Flateyrar en þangað hafði okkur verið boðið í kaffi til fólks sem þar bjó. Haldið var sem leið lá þangað. Við Dolli stoppuðum stutt í þessu kaffiboði, en héldum niður á bryggju þar sem hann sýndi mér það helsta þar. Hann hafði verið í fiski þarna fyrir tæpum 30 árum. Þaðan lá svo leiðin útí Klofning en það hafði verið vinsæl gönguleið hjá verbúðafólkinu þarna um árið.
Nú var orðið nokkuð liðið á dag og var því haldið heim á leið og komið heim um kl. 18:10 þetta var búinn að vera góður dagur og frábært veður.

dagur 5
Í dag höfum við tekið því rólega, ég drattaðist ekki á fætur fyrr en undir hádegi. Þar sem veðrið var gott var ákveði að gá til berja og fóru Dolli og Ninna á undan okkur. Dolli kom til baka til að fara í betri skó og sagði okkur hvar þau væru. Ég þóttist náttúrulega vita nákvæmlega hvar það var. Héldum við Sigga síðan á stað skömmu seinna beint á þann stað sem ég hélt þau hefðu farið á. Við leituðum síðan hér um nágrenið en fundum ekkert. Við vorum að því komin að gefast upp þegar ég sá veg upp fyrir þorpið og fórum við hann. Auðvitað voru þau þar uppi í hlíðinni en ég hafði ruglast á grjótnámi og malarnámi beið við malarnámið. Dvöldum við þarna á annan tíma við berjatínslu. Um leið og heim var komið fórum við strákarnir að undirbúa grillið og byrjuðum á kartöflum. Kvennpeningurinn hafði farð útí búð og hringdu þær í okkur og sögðu að Ninna þyrfti að komast strax til læknis en hún hafði orðið fyrir flugnabiti sem hún hefur greinilega ofnæmi fyrir. Dolli dreif sig með þær á Ísafjörð en ég hugsaði um kartöflur á grillinu á meðan. Meðan ég var að hita þær var ég að fikta í myndavélinni minni. Var að lesa mig til og reyna að læra betur á hana, þegar ég ýtti óvart á vitlausan takka og formattaði kortið uppá nýtt. Eyðilagði semsagt allar myndir sem höfðu verið teknar þann daginn. Til allrar hamingju hef ég haft það fyrir sið að setja allar myndir sem ég hef tekið yfir daginn yfir á tölvuna svo það voru 5 eða 6 myndir sem fóru í súginn. Þakka mínu sæla fyrir að hafa haft tölvuna með.

Dagur 6
Í dag var farið tiltölulega seint af stað, en ferðinni var heitið á Ísafjörð. Kvennfólkið vildi fara í búðir. Við skiluðum þeim þangað og ég og Dolli héldum síðan á Breiðdalsheiði. Það er greinlegt að veginum þar er ekkert haldið við því að allur ofaníburður er horfin. Þar sem hann er hæstur hafði hrunið á hann úr skriðu og þurftum við að færa til stein svo við kæmumst alla leið. Ferðin sóttist samt hægt en örugglega og verður að segjast eins og er að “sliddujeppinn” hanns Dolla stóð sig með þrýði. Tókum svo göngin undir heiðina til baka. Þetta var alveg mátulegt ferðalag en þegar við komum út úr göngunum aftur voru þær að fara til baka að bílnum mínum sem ég hafði skilið eftir handa þeim.
Við héldum nú til Súðavíkur aftur en þá uppgötvaðist að aldrei hafði verið komið við í apótekinu eins og til stóð. Ég brunaði því aftur til Ísafjarðar þar sem Hanna skaust inn í apótekið. Þá var loksins hægt að halda heim aftur sem tók mjög stutta stund. Því sem eftir var dagsins var eytt í það að ganga frá.

Dagur 7
Nú var komið að síðasta degi okkar í Súðavík en upphaflega stóð til að vera þar fram á sunnudag. Við ákváðum hinsvegar að breyta ferðaáætlun og taka áfangan heim á tveim dögum. Það reyndist verða skynsamleg ákvörðun. Nú við lögðum á stað undir hádegi til Ísafjarðar og þaðan var stefnan tekin á vestjarðagöngin undir Breiðdalsheiði. farið var sem leið lá til Þingeyrar. Þá var haldið í næsta áfanga en það var Bíldudalur. Þar hafði verið ákveðið að skeppa í heimsókn til skyldfólks sem þar býr. Hanna og Sigga urðu eftir þar en við hin héldum út í Selárdal. Þar skoðuðum við verk Samúels Jónssonar, sem nú er verið að lagfæra og forða frá skemmdum. Fannst mér mikill munur á ástandi þeirra núna heldur en þegar ég kom þarna fyrir u.þ.b. 15 árum.
Eftir stuttan stans þarna í Selárdalnum var haldið til baka á Bíldudal til að sækja þær Hönnu og Siggu. Okkur hafði verið ráðlagt að fara sömu leið til baka en ekki í gegnum Patreksfjörð sem væri u.þ.b. 100 km lengra. Leið okkar lá svo beina leið í Flókalund en þar fengum við okkur að borða. Barðaströndin var síðan ekin sem leið lá í næsta áfanga sem var Djúpidalur í Djúpafirði en þar höfðum við pantað gistingu.

Dagur 8
Þá var ágætis ferð komin á enda, vöknuðum snemma þennan morgunin. Reyndar var ég illa sofinn en held að það hafi bara verið kaffidrykkja kvöldið áður. Við héldum á stað suður rétt fyrir hádegið. Fyrsti áfangastaðurinn var Reykhólar og fórum við út að Stað. Þar er mjög falleg eyjasýn og sést vel yfir. Eftir að hafa dvalið þarna um stund var haldið af stað aftur. Ferðin suður gekk eins og í sögu stoppað í Borgarnesi til að fá sér að borða. Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem náðu heim um kaffileitið í Mosó.


09 ágúst 2006

Slappað af og notið þess að vera í fríi

Mikið er maður nú búinn að taka því rólega eftir að við komum heim af "nesinu". Eiginlega hefur ekkert verið gert að viti. Reyndar skruppum við í skutlutúr hérna upp í dal sl. laugardag og var það að mörgu leiti góður túr. Því miður eru engar myndir til úr túrnum.
Nú erum við að byrja að undirbúa ferðina vestur á firði en þangað er meiningin að halda um næstu helgi. Meira um það síðar.

04 ágúst 2006

Á ferð um Snæfellsnes


Jæja, þá er maður kominn í sumarfrí. Á þriðjudaginn lögðum við Sigga ásamt Ingibjörgu (systur minni) og Jan (manni hennar) í ferð á Snæfellsnesið en þangað hafði hann aldrei komið. Þetta var svona skyndi hugdetta sem ég fékk um sl. helgi. Það verður að segjast eins og er að ferðin heppnaðist mjög vel. Nesið var farið réttsælis gist á Arnarstapa eina nótt. Enduðum ferðina á því að fara í skoðunarferð um eyjarnar utan við Stykkishólm með Sæferðum.