22 júní 2006

Leið eins og prestinum í brandaranum

Þar kom að því að það kæmi almennilegt veður, í gær þegar ég var búinn að vinna þá ákvað ég í staðin fyrir að fara beint heim að sjá hvort ekki væri einhver að skjóta við Íþróttahús ÍFR. Fyrir þá sem ekki vita, þá er þar lítill völlur notaður fyrir bogfimi utanhúss. Þegar ég svo kem þangað er þar ekki nokkur kjaftur. Ég dreif samt dótið mitt út úr bílnum og byrjaði að skjóta á uppsett mark í 30 metra fjarlægð. Mér gekk svona líka vel, en ég var einn til frásagnar um það og fannst það hálf súrt, leið svona eins og prestinum í brandaranum sem stalst á golfvöllin, í stað þess að hafa messu á sunnudagsmorgni.
Eftir að vera búinn að skjóta u.þ.b. 26 örvum þá var ég farinn að finna til þreytu í fótum, en ég skaut standandi sem ég geri alla jafna ekki. Ég bölvaði í hljóði því að hafa engan stól og gerði ekki ráð fyrir að neinn væri í húsinu. Fór samt og athugaði það, en sá engin merki þess. Nú það var bara að bíta á jaxlinn og halda áfram. Verð ég þá ekki var við einhverja hreyfingu á bak við mig og er þá ekki þar hann "Doddi" framkvæmdastjóri ÍFR, bað ég hann hið snarasta að útvega mér stól samskonar og ég notaði venjulega við það að skjóta innanhúss. Þetta varð til þess að ég gat haldið áfram í klukkutíma í viðbót. Í þann mund sem ég var síðan að fara þá kom einn félaginn og varð hann mjög hissa á því að sjá mig þarna. Já það verður að segjast eins og er að ég er ekki nógu duglegur við þetta, kannski hefur líka veðráttan hamlað.
Það verður farið aftur í dag ef góða veðrið helst ;)

13 júní 2006

Leiðindar vika

Mikið óskaplega var síðasta vika eitthvað óspennandi. Nákvæmlega ekkert að gerast. Ég byrjaði að finna fyrir kvefpest um miðja síðustu viku og hef legið eins og skata síðan á föstudagskvöld. Nú er farið að rofa til og ætti ég því að öllu forfallalausu að komast til vinnu á morgun.
Það fór ekki eins og til stóð að ég færi til vinnu "á morgun" eins og ritað var hér að ofan, mér var skipað að hafa mig hægan það sem eftir var vikunnar til þess að mér slægi ekki niður aftur.

06 júní 2006

Náðug hvítasunnu helgi

Við áttum náðuga daga um hvítasunnuhelgina austur í bústað. Þó var hægt að nýta mann í smá málningarvinnu minna mátti það varla vera. Myndin sem fylgdi síðustu færslu er greinilega kominn nokkuð til ára sinna en ýmislegt hefur breyst frá því að hún var tekin, þó ekki væri nema gróðurinn fyrir austan. Hann hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár.
Nú er grámyglulegur hversdagsleikinn tekin við, ekki er hægt að segja að veðrið sé spennandi. Maður verður bara vona að úr rætist fljótlega.