21 apríl 2006

Gleðilegt sumar

Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf, bara svona að láta vita að við erum við hestaheilsu annars er ekkert að frétta þannig lagað séð.

12 apríl 2006

Einn með sjálfum sér


Ég er búinn að vera í fríi þessa vikuna og notið þess að slappa af. Sigga er að spá í að fara austur í bústað eða þær mæðgur, og vera þar um páskana. Hins vegar er okkur karlpeningnum í kringum þær ekki boðið með. Við megum koma í mat á páskadag ef við viljum. Ég ætla mér að slappa vel af, hafa aðeins mig um að hugsa meðan þær eru í burtu.
Nóg um það ég er að búa mig undir að fara sem opinber fulltrúi CP félagsins á bingó sem halda á hér á Draumakaffi en allur ágóði þess rennur til félagsins. Svona í tilefni þessa læt ég meðfylgjandi mynd fylgja, en hún var tekin á fræðslufundi félagsins nýverið. Hvort þetta verður langt stopp hjá mér þarna á Draumakaffi sem er hér í Mosó veit ég ekki ennþá það verður bara að koma í ljós.

10 apríl 2006

Tvö mót um helgina

Þetta fer nú að verða hálf lélegt, mesta lagi skrifað hér einu sinni í viku. Svona er þetta bara þegar lífið er fallið í fastar skorður og ekkert merkilegt að gerast.
Núna um helgina tók ég samt þátt í tveim bogfimimótum þ.e.a.s. sem keppandi, annað var Íslandsmót ÍSÍ sem haldið var sl. laugardag hitt var svokallað forgjafarmót, en þá fengu allir þátttakendur ákveðna forgjöf sem miðast við frammistöðuna daginn áður en þetta forgjafar mót var haldið í gær. Það verður að segjast eins og er að árangurinn í fyrradag var mun betri heldur en á Íslandsmóti ÍF. Á forgjafarmótinu var ég með 15 í forgjöf og varð ég nokkuð sáttur við útkomuna.
Niðurstaða þess móts verður birt á morgun væntanlega.
Þetta er nú það helsta sem á dagana hefur drifið fyrir utan þetta hefðbundna vinna, éta og sofa.

03 apríl 2006

Leiksýning og flakk um Reykjanesið

Þetta er búinn að vera rólegheita vika og þess vegna ekki verið ástæða til að skrifa mikið. Jæja, en hvað um það hefur samt ýmislegt gerst. Við fórum hjónakornin og sáum Pókok í flutningi Halaleikhópsins sl. laugardag. Hvet alla til að sjá þá sýningu hún er alveg þess virði.
Í gær fórum við í nokkuð góðan túr um Reykjanesið. Fyrsti áfangi ferðarinnar var í Voga og litum þar inn hjá gömlum vinnufélaga. Næsti áfangi var Hafnir, en þangað hef ég ekki komið í fjöldamörg ár. Heldur finnst mér það nöturlegt pláss, kannski var það bara árstíminn og allt rykið sem gerði það svona nöturlegt. Þaðan var síðan haldið sem leið liggur í Grindavík. Veðrið var hið fegursta en ansi var hann kaldur samt.
Þar sem hér var um algjöra skyndiákvörðun að ræða þ.e. að fara í þennan bíltúr, þá náttúrulega gleymdist að hafa með sér myndavél og því eru engar myndir til úr túrnum. Ég held að ég fari að geyma vél bara í bílnum eða þannig. Góður túr og fínn endir á góðum degi.