06 mars 2008

Mót, námskeið og fleira


Það er nú orðið nokkuð síðan ég skrifaði hér síðast, en undanfarnar vikur hefur verið mikið að gera. Um síðustu helgi var ég t.d. mótstjóri á svokölluðu Internetmóti ÍFR og MTV Dannenberg og er þetta í fjórða skipti sem það fer fram. Mótið fer þannig fram að paraðir eru saman þátttakendur einn frá ÍFR og einn frá MTV og þeir keppa innbyrðis. Alls tóku 34 þátt að þessu sinni 17 frá hvoru félagi. Þegar keppni líkur þá eru úrslit send strax til mótherjans og við móttókum úrslit þeirra og röðuðum saman. Niðurstöðu má sjá á síðunni sem ég vísaði til hér áður.
Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að fjalla hér um vinnuna, en hef staðið í ströngu í dag í að aðstoða og vera með fyrirlestur á námskeiði, sem haldið var fyrir umboðsmenn TR og má segja að allur vindur sé úr manni eftir svona dag.
Um næstu mánaðarmót verður skroppið til Færeyja eina helgi á vegum Kiwanis og er mann strax farið að hlakka til.