30 júlí 2005

Umhyggja fyrir landsbyggðinni

Ég lít greinilega allt of sjaldan í gestabókina á blogginu mínu, en mér er bæði ljúft og skylt að svara spurningu frá Laufey systur minni, um hvort ekki sé vel séð fyrir landsbygðarlýðnum hjá okkur varðandi gistiaðstöðu.
  1. Þokkalega rúmt herbergi
  2. Tvíbreiður svefnsófi
  3. Gott næði í sveitinni
Getur þetta orðið nokkuð betra ég hins vegar ábyrgist ekki þjónustuna það fer svona eftir því hvernig liggur á gestgjöfum í það og það skiptið 0
Landsbyggðar lýðurinn er semsagt boðinn velkomin að gista ef þörf er á. Þá vitið þið það.

28 júlí 2005

Ekkert flakk á okkur

Við hjónakornin erum löngu búinn að ákveða það að vera ekki á neinu andsk... flakki um næstu helgi. Þetta er rólegasta helgi ársins á höfuðborgarsvæðinu.
Annars gengur lífið sinn vanagang hjá okkur og ekkert sérstakt að gerast. Við erum óðum að aðlagast nýju umhverfi og verðum ánægðari með hverjum deginum. Loksins hefur maður nóg pláss í kringum sig, það hef ég aldrei haft fyrr. Það er samt verst að ég virðist búinn að leggja undir mig aukaherbergið í íbúðinni, þannig að Sigga þarf að finna sínu dóti einhvern stað. Við leysum það eins og hvað annað. Það er komin nokkur fiðringur í mig vegna væntanlegrar ferðar til Þýskalands, réttara sagt bæjarins Dannenberg við ána Elbu. Meira um það síðar að ferð lokinni, en ég fer þann 19. ágúst næstkomandi. Tókuð þið eftir að ég sagði "ég" Sigga fer ekki með treystir sér ekki í það. Hún er búinn að taka af mér loforð um að koma heim með þjóðbúningadúkku í safnið sitt.
Það verður gestur hjá okkur um helgina svo það ætti að verða fjör í kotinu.

24 júlí 2005

Veðurblíða í Krika á Haladegi

Í gær fórum við Sigga niðrí Krika, sem er sumarbústaður sem er í eigu Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Bústaðurinn stendur við Elliðaárvatn. Þar voru saman komnir nokkrir Halar, sem hafa hist þar einu sinni í mánuði í sumar. Við vorum reyndar með í fyrsta skiptið núna. Við Ragnar Gunnar höfðum sammælst um að hafa með okkur hljóðfæri ef einhver skildi vilja syngja en svo kom Einar Anrésson líka og voru þá mætt 2/3 af SJER. S (essið - Sigurð Einarsson vantaði). Þarna í veðurblíðunni undi fólk sér við söng, spjall hvert við annað og grill. Ekki má gleyma einu, nokkrir félagar tóku sig til og leiklásu nokkur stuttverk með tilþrifum við góðar undirtektir viðstaddra.
Við vorum ekki kominn heim fyrr en undir kl. 21:30. Orðin sólbrennd og alles. Það er eitt sem ég þarf að muna eftir í svona veðráttu eins og í gær, en það er að hafa með mér húfu annars brenn ég á skallanum. Árni Sal bjargaði mér í gær með því að lána mér forláta sjóhatt sem hann fékk austur á Hornafirði. Takk fyrir það Árni.
Ég held að hún Ása Hildur fyrirgefi mér alveg þó ég setji krækju á hennar blogg hér til að sýna ykkur myndir frá gærdeginum, en veðrið var einstakt, og svo er staðurinn bara svo fallegur.

21 júlí 2005

Bloggað í ár

Það er orðið nokkuð langt síðan hér hefur verið skrifað. Það á sér augljósa skýringu, það er fjandakornið ekkert merkilegt að gerast. Dagarnir hverjum öðrum líkir, sama gamla rullan
  1. vinna
  2. éta
  3. sofa
Ekki er þetta nú merkilegt. Jæja, en nóg um það, spilamennskan um síðustu helgi tókst mjög vel og ég held að allir hafi skemmt sér hið besta. Reyndar voru sumir gestirnir orðnir ansi drukknir þegar ballinu lauk. Hvað um það við skemmtum okkur hið besta.
Ég var að fatta það að nú er um það bil ár síðan ég byrjaði að bulla hér á vefnum, en löngu búinn að renna á rassin með það að "blogga" á hverjum degi. Það verður þá að vera eitthvað til að blaðra um. Einhvern tíma hef ég rætt það hvers vegna ég byrjaði á þessu en það var í tengslum við spítalaveru fyrir ári síðan. Ekki óraði mann fyrir þá að þetta entist í ár. Fyrir utan það hvað margt hefur gerst síðan þá. Nú eru samt horfur á því að endurtaka þurfi sömu aðgerð og ég fór í fyrir ári síðan. Ég fór um daginn og ræddi við lækni vegna þess að mér fannst ekki allt með felldu og hann tjáði mér að það þyrfti að endurtaka þetta. Reyndar verður þetta smávægilegt í samanburði við síðast.
» Enginn sagt sína skoðun

11 júlí 2005

Síðastliðin vika

Það er orðið nokkuð langt síðan hér hefur verið bloggað. Ástæðan er einföld undirritaður hefur verið veikur og haft um annað að hugsa en bloggið.
Hvað var svo að "kalli" jú mjög alvarlegt þursabit svo slæmt að ég gat mig nánast ekki hreyft í 4 - 5 daga. Er kominn á ról aftur.
Það hefur ekkert merkilegt svo sem gerst s.l. viku en þó hefur okkur tekist að rýma litla herbergið hjá okkur sem gegnt hefur hlutverki geymslu síðan við fluttum. (Geymslurnar eru loksins tilbúnar, og búið að rusla öllu þangað niður). Það má segja að nú séum við loksins búinn að flytja þegar þetta herbergi verður komið í notkun. Það verður óneitanlega gott að geta komið t.d. hljóðfærunum fyrir ásamt sjónvarpi og tilheyrandi græjum sem nú eru til óprýðis í stofunni.
Útlit er fyrir strangar æfingar hjá okkur strákunum í SJER á báti út vikuna, en um næstu helgi ætlum við að spila á Gömlu Borg í Grímsnesi eins og við gerðum í fyrra. Í fyrra tókst mjög vel til og engin ástæða til annars en að svo verði líka núna. Vonandi gott "gigg" framundan.