30 maí 2006

Stefnt austur um helgina


Í gærkvöldi skruppum við hjónakornin ásamt tengdamömmu austur í sumarbústað í alveg dásamlegu veðri. Tilgangur fararinnar var að koma dóti austur og losna við mold sem átti að fara þangað. Við ætlum okkur að dvelja fyrir austan um hvítasunnuhelgina og eiga náðuga daga.

29 maí 2006

Að loknum kosningum

Það hefur verið frekar rólegt hjá okkur síðustu vikuna. Það eina sem lífgaði uppá þetta allt voru náttúrulega kosningarnar. Ég skrapp á eina kosningavöku í sveitinni og var gaman að fylgjast með þegar fyrstu tölur komu loksins, en það var ekki fyrr en uppúr kl. 23:00. Tölunum var tekið fagnandi, og sem betur fer þá breyttist niðurstaðan ekki. Gerði annars stuttan stans þarna nóg til að klára úr einni kollu. Á leiðinni heim heyrði ég mikil fagnaðarlæti frá kosningavöku VG greinilegt að þar voru menn kátir líka.
Það var haft á orði við mig að nú sætum við sveitamennirnir uppi með þrjá kónga en hefðu velt einni drottningu.

20 maí 2006

Setið á Sjálfsbjargarþingi.

Núna í gær og í dag hefur staðið yfir Sjálfsbjargarþing (haldið á tveggja ára fresti) og var ég einn af þingfulltrúum. Þetta þing er merkilegt fyrir þær sakir að það stóð aðeins í tvo daga. Þingin hafa yfirleitt verið í þrjá daga. Með góðum undirbúningi og skipulagningu þá tókst að koma öllu fyrir á tveim dögum. Þingið gekk vel fyrir sig og var gaman að taka þátt í því.

15 maí 2006

Aðalfundarskrall og fleira

Það eru nokkrir dagar síðan við risum uppúr flensunni, og erum bæði hin sprækustu. Lífið er sem sagt komið í fastar skorður aftur. Núna um helgina fagnaði ég með verðandi félögum mínum í Kiwanisklúbbnum Geysi, en þeir héldu sinn aðalfund sl. laugardag. Það varð heljarinnar mikið skrall. Já þið tókuð eftir að ég sagði verðandi félögum, en ég mun formlega ganga í þann klúbb nú í haust. Þetta er löngu ákveðið en ég frestaði þessu um einn vetur. Hlakka til að taka þátt í því öfluga starfi, sem þar á sér stað en starfsvæði klúbbsins er Mosfellsbær.
Sigga var að leika núna um helgina og voru síðustu sýningar á Pókok um helgina. Hún var að segja hér um daginn að þetta yrði í "síðasta skipti sem hún yrði með". Ég held að það verði varla því hún kann ekki að segja nei.

05 maí 2006

Æi, helv... flensa

Þetta verður stutt og laggott núna, en hér liggjum við bæði hjónakornin í flensu. Sigga búin að vera svona í heila viku en ég lagðist í gær.

02 maí 2006

Til hamingju


Það er nú ekki mikið til að blogga útaf þessa dagana. Þeir (dagarnir) eru hverjir öðrum líkir allt í föstum skorðum eins og vanalega. Þó ber þess að geta að "kella" mín er lasin heima þessa stundina held hún hafi fengið "súrefniseitrun" þ.e. hún þoldi ekki útiveruna á okkur nú á dögunum, en þá fórum við smá túr meðfram strandlegjunni heima. Það var eins og venjulega engin myndavél höfð með, en veðrið var alveg stórgott.
Það verður nú að teljast til frétta að eignast nýja frænku (orðin ömmubróðir einu sinni enn), og er öllum hlutaðeigandi óskað til hamingju. Læt fylgja mynd af montnum frænda hjá litlu systur.