31 mars 2005

Engar fréttir - góðar fréttir

Þetta er búinn að vera ósköp venjulegur dagur þ.e.a.s. fimmtudagur og þeir eru nánast alltaf eins hjá mér. Núna í kvöld var fundur í Esjunni og var hann hinn besti, við þessir 5 sem fórum norður á dögunum sögðum ferðasöguna, reyndar bara þrír og kom hún að sjálfssögðu í þremur mismunadi útgáfum þessa opinberu er hægt að skoða með því að smella hér.
Annars er ekkert nýtt að frétta nema það besta. Eru engar fréttir ekki góðar fréttir.

30 mars 2005

Hvað hefur gerst síðan síðast?

Jæja, hvað hefur nú gerst síðan síðast - jú, páskarnir eru liðnir og fóru nokkurn veginn eins og til var ætlast. Mér tókst nokkurn veginn að gera ekki neitt. Það hefði verið nær að gera eitthvað af viti en hvað það ætti að vera skal ósagt látið.
Ég var búinn að ætla mér að skrifa eitthvað voða merkilegt hér en vegna bilunar í hugbúnaði þá var það ekki hægt og nú er ég löngu búinn að gleyma því hvað það var. Helv.... "Alsheimer light" - kannski.
Það er ekkert nýtt að frétta í húsnæðismálum það gengur bara sinn gang. Skruppum uppeftir á annan í páskum og það tók því ekki að taka myndir enda engin breyting sjáanleg frá því síðast. Við tókum mömmu með til að leyfa henni að sjá, en síðast þegar hún kom uppeftir þá var svo mikil þoka að hún áttaði sig engan vegin á því hvar þetta var. Núna er hún búinn að fá rétta afstöðu af þessu öllu saman.

27 mars 2005

Skroppið í bíltúr

Við hjónakornin skruppum í sveitina í dag til að athuga hvort eitthvað hefði gengið í framkvæmdum sem sjáanlegt væri. O nei - ekki var það að sjá þannig að engin myndin var tekin núna. Við héldum svo áfram uppí Hvalfjörð og yfir Kjósarskarð. Þaðan lá svo leiðin heim í gegnum Mosfellsdalinn og heim. Mátulega langur bíltúr á góðum degi.

25 mars 2005

Nú á að liggja í leti

Daginn fyrir skírdag skrapp ég norður á Krók eins og eflaust hefur verið minst á hér. Þessi ferð varð öll hin ánægjulegasta. Ég notaði að sjálfsögðu tækifærið og heimsótti Leif og Gunnu og átti með þeim ánægjulega kvöldstund. Við héldum svo til baka á skírdag, en því miður var ég þá orðinn hundveikur og lá með "skitu" allan daginn í gær. Það er langt síðan ég hef orðið svona veikur.
Það er meiningin það taka því rólega yfir páskana og gera sem allra minnst bara að njóta þess að vera til.

21 mars 2005

Venjulegur dagur

Þetta er búinn að vera ósköp venjulegur dagur, og lítið markvert gerst. Það var stjórnarfundur hjá CP félaginu í kvöld og var þar ýmislegt rætt um skólamál fatlaðra barna. Fróðlegar umræður og skemmtilegar. Annars er bara allt við það sama, frí framundan sem ég ætla mér að nýta til þess að dekra við sjálfan mig og mína vona ég.
Annars veit ég ekki hvað maður á eiginlega að skrifa um á svona venjulegum degi, þegar allt er fallið í fastar skorður aftur. Þið vitið vinna, éta og sofa. Sama gamla tuggan upp aftur og aftur. Ég gæti haldið áfram að bulla svona en nú er mál að hætta og fara að gera eitthvað uppbyggilegra eins og að halda áfram að lesa "krimman" sem búinn er að vera á náttborðinu mínu síðan "sautján hundruð og súrkál".

20 mars 2005

Nýja húsið okkar


Við skruppum í sveitina í dag og ég hafði með mér myndavél. Svona lítur nú húsið okkar út í dag. Þau ykkar sem ekki vita þá verðum við á annari hæðinni í miðjunni. Þessi mynd er semsagt tekin þann 19. mars 2005 kl. 16:10 til að vera nú nákvæmur. Við höfum í hyggju að að kíkja uppeftir með reglubundnu millibili og munum birta myndir þannig að allir geti fylgst með hvernig gengur. Nú virðist í tízku að klæða með bárujárni og þannig verður það hjá okkur. Ég er ekkert allt of hrifinn en það venst. Birtum væntanlega aðra mynd eftir viku eða svo. Höldum því svo áfram þangað til við flytjum inn.

ps. Til hamingju með afmælið Leifur

18 mars 2005

Langar til að slappa af

Æ, hvað er gott að geta slappað af. Væntanlega róleg helgi framundan. Sýningin á Kirsuberjagarðinum í kvöld gekk mjög vel. Já, ég sagði að það yrði róleg helgi framundan, en svo tekur við vinna og aftur vinna, þangað til á miðvikudag. Þá komum við til með að ganga endanlega frá sölunni á Austurberginu - og strax á eftir fer ég ásamt nokkrum félögum mínum úr Esjunni norður á "Krók" en við ætlum að heilsa uppá félaga í Drangey. Meira um þetta allt síðar.
Ég setti inn leitarbox á þessa síðu svo nú geta þeir sem lesa gáð að því t.d. hvort ég hef skrifað um þá annað hvort vel eða illa. Fjandakornið nú þyrfti ég virkilega að setjast niður og fara að pæla í PHP script á vefnum ef mér á að takast að halda þessum síðum mínum í sæmilegu horfi. Hvunær skildi maður hafa tíma til þess eða þannig ha! Vonandi einhverntíma - þegar ég kemst á elli kannski ?

17 mars 2005

Leiðindar veður

Það er mikið búið að vera að gera í vinnunni í dag. Ekki orð um það meir - en ég var að koma af góðum fundi í Esjunni, þótt við værum fáir þá var þetta góður fundur.
Fjórða sýning á Kirsuberjagarðinum verður á morgun og hvet ég alla sem þetta lesa að mæta en sýning hefst kl. 20:00. Hægt er að panta miða í síma 552 9188.
Ég var að skoða sýningarplanið og fimmta sýning verður síðan 1. apríl, já þann fyrsta þetta er ekkert aprílgabb eða þannig. Hugsa sér hvað tíminn flýgur áfram. Ég held að það verði komið sumar áður en maður veit af.
Mikið er veðrið annars fúlt núna, sit hérna og heyri regnið dynja á glugganum, já nú er maður feginn að vera ekki einhversstaðar úti að baksast áfram í rigningar drullunni.

ps. til hamingju með afmælið Magga.

16 mars 2005

Hálfgert spennufall

Nú er allt eitthvað svo á rólegu nótunum að ég hef bara ekkert að skrifa um. Ekkert nýtt að frétta í húsnæðismálum eða neinu slíku. Það er eins og það hafi orðið nokkurskonar spennufall hjá okkur. Mesta spennan farinn úr öllu bæði húsnæðismálum og svo ganga skýningar á Kirsuberjagarðinum vel. Hafði samband við fasteignasöluna og þar eru okkar mál í vinnslu og ekki komin dagsetning á undirritun kaupsamnings vegna Austurbergsins enn.
Eiginlega kann ég ekki á svona rólegheit - eða þannig. Mikið vildi ég að það væri svona rólegt í vinnunni - þar er allt á útopnuðu.

11 mars 2005

Búið að selja

Jæja, þá erum við Sigga búinn að selja, en við skrifuðum undir tilboð í dag. Nú getur maður farið að anda léttar. Verð var nokkuð vel ásættanlegt hærra en ég reiknaði með. Meira verður ekki sagt um það hér.

10 mars 2005

Hver bíður best

Allt á fleygjandi ferð í tilboðsmálum eins og er, ekkert samt fastákveðið ennþá. Skýrist betur á morgun hver bíður best eða hvort við verðum búinn að fastnegla eitthvað þá.
Svona til að létta skap allra sem lesa læt ég þessa fylgja

Þessi gullvæga setning heyrðist við kvöldverðarborðið frá einni á leikskólaaldri nýverið
Dóttirinn: "Var ég búin til í glasi eða rídd?"
Úr því varð þessi skagfirska limra
Úr hvaða efni er ég smídd
Af íslensku hold' eða þýdd
Ég vita það vil
því víst er ég til.
Er ég ættleidd, úr glasi eða rídd?

09 mars 2005

Ýmislegt að gerast

Óformlegt tilboð liggjur í loftinu varðandi Austurbergið en það skýrist kannski betur á morgun. Þetta tilboð skýrist betur væntanlega á morgun en ég ætla leggjast vel yfir það og vera ekkert að flýta mér. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum og rasa ekki um ráð fram.
Við vorum með SJER æfingu í dag sem tókst nokkuð vel, þrátt fyrir að einn vantaði stóran hluta tímans en það var af óviðráðanlegum orsökum.
Svo var Kirsuberjagarðinum rennt í kvöld og tókst þokkalega vel. Nú er bara að setja sig í gírinn fyrir sýninguna á sunnudag.

08 mars 2005

Fyrsta tilboð

Það kom tilboð í Austurbergið sem, ég var ekki sáttur við og gerði því gangtilboð. Nú er bara að sjá hversu mikil alvara hefur verið á bak við tilboðið. Hvort ég og væntanlegur kaupandi náum saman verður að koma í ljós.
Annars er allt við það sama bara verið í rólegheitum.

07 mars 2005

Rólegheit eftir mikið amstur

Ekki er maður alveg laus við Halastúss en það fer óðum minkandi. Kláraði að gera upp þá reikninga sem höfðu borist. Það er svolítið undarlegt að geta bara slappað af heima.
Nú af húsnæðismálum er það að frétta að tilboð er væntanlegt í Austurbergið og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því. Það er semsagt einhver hreyfing á hlutunum.

Önnur sýning og peningamokstur

Þessa dags minnist ég kannski sem dagsins sem ég mokaði út peningum Halans, já ég stóð í því að gera upp við alla og held að nú séum við með nokkuð hreint borð.
Þá er önnur sýning búinn á Kirsuberjagarðinum og hún tókst mjög vel. Reyndar var ég næstum eða klúðraði einu "kjúi" sem ljósamaður, en ég held að mér hafi tekist að bjarga því. Annars var þetta bara góður dagur og veðrið alveg yndislegt.
Hugsið ykkur nú getur maður bara slappað af fram á miðvikudag, en þá verður æfing og betra að ég sé á staðnum einnig til að æfa ljósarennsli.

06 mars 2005

Frumsýning og fleira

Við Sigga erum orðnir eigendur að tveim húseignum, en við gengum frá kaupsamningi á Tröllateignum í gær föstudag. Austurbergið er ekki selt ennþá þannig að við eigum nú tvær íbúðir eða þannig. Vonandi selst nú Austurbergið fljótlega.
Frumsýningin á Kirsuberjagarðinum gekk mjög vel. Við vorum samt óánægð með hvað fáir áhorfendur voru.
Frumsýningarpartíið á eftir var ósköp hefðbundið en við fórum snemma, en mér er sagt að "sumir" hafi enst til kl. 08:00 morgunin eftir.
Dagurinn í dag fór í allt annað en ég hafði ætlað mér, en við enduðum á því að heimsækja Sigurrós og áttum með henni góða kvöldstund ásamt Stebbu og Jósa.

02 mars 2005

Mikið að gerast

Nú er nokkuð um liðið síðan ég skrifaði síðast. Ýmislegt hefur gerst í millitíðinni t.d. erum við að fara á föstudaginn og undirrita kaupsamning vegna kaupanna á íbúðinni að Tröllateig 20 í Mosfellsbæ.
Ég og Sigga reyndar líka höfum undanfarna viku verið á kafi í leiklistinni, ég sem ljósamaður (og gjaldkeri), og hún með smá "rullu" í Kirsuberjagarðinum, sem frumsýna á næstkomandi föstudag 4. mars. Það er varla útlit fyrir að hægt verði að skrifa mikið þessa vikuna en læt heyra frá mér eftir föstudaginn vonandi.