31 júlí 2004

Sammenkomst í Krika

Jæja, þá er lífið að færast í eðlilegar skorður, ég þurfti reyndar að skreppa uppá spítala í gær vegna "smá" tæknilegrar bilunar í lögninni en því var snarlega kippt í liðin.
Örn Sigurðs sendi mér SMS áðan og spurði hvort ekki ætti að láta sjá sig uppi í Krika. Það varð úr að við hjónakornin skruppum uppeftir og var þar góðmenn samkoma. Nóg að bíta og brenna og ekki skorti drykkjarföngin heldur. Af einskærri rælni þá hafði ég stungið gítarnum mínum (einum af mörgum) í skottið á bílnum og kom það sér vel þó ekki sæi ég um spilamennskuna en það leysti RGÞ af mikilli prýði. Þeir fatta sem til þekkja.

Þar sem ég hef ekki ennþá úthald í miklar setur þá fórum við Sigga snemma heim en fólk ætlaði að vera þarna eitthvað fram eftir kvöldi. Takk fyrir góða samveru.

30 júlí 2004

Skoðanakönnunin

Eins og einhverjir hafa séð var ég með skoðanakönnun hér á síðunni og urðu niðurstöður hennar þessar Spurt var á ég ekki bara að hætta við að fara í aðgerðina Nei láttu slag standa 17% Jú, skríddu í felur 0% Fáðu henni frestað ótímabundið 0% Lestu allt sem þú getur um "bilaðar lagnir" 17% Hertu þig upp maður og láttu drífa þetta af 67%

Spítalasagan hin síðari

Jæja þá er maður kominn heim aftur. Þar sem maður er ekki nettengdur á "lansanum" þá fylgir með löng skýrsla.
27. júlí 2004

Jæja þá er aðgerðin búinn og þetta var ekkert mál. Ég veit ekki hverju ég kveið svona mikið. Hérna á stofunni með mér er gamall vinnufélagi úr Húsasmiðjunni, Sigurbjörn en við vorum í timbursölunni saman á árunum 76 – 81. Reyndar hafði ég hitt hann á förnum vegi fyrir svona þrem vikum eða svo en hafði þá hvorki séð hann eða heyrt í yfir 20 ár. Eftir því sem ég best veit þá lukkaðist aðgerðin vel en það kemur betur í ljós næstu daga, ég á eftir að ræða betur við Ársæl lækni á morgun. Við herbergisfélagarnir ræddum ástand okkar en það er nokkuð sem almennt er ekki rætt yfir kaffibollum í samræðum manna á milli. Það er kannski ástæða þess að karlmenn draga það í lengstu lög að láta athuga “pípulögnina”. Sigga og Ninna komu hérna áðan þær ætluðu varla að þora að koma í heimsókn, héldu víst að ég lagi hálf rænulaus ennþá en það var nú öðru nær. Ég eyddi þessu fyrsta kvöldi hér á “Lansanum” í það að klippa kvikmynd sem ég tók í sumar þegar við vorum í Køben. Alveg makalaust forrit að mörgu leiti iMovie og ég held að ég eigi eftir að ná góðum tökum á því. Þetta er þolinmæðisvinna og ekkert annað. Afraksturinn fá svo útvaldir að sjá einhverntíma með haustinu. Jæja ekki meira í bili best að fara að sofa.

28. júlí 2004 Þetta var ekki góð nótt, vaknaði upp um tvöleitið með hræðilegan brjóstsviða. Þetta var alveg eins og fyrsta nóttin hérna síðast. Ég fékk einhverja mikstúru við þessu og hún virkaði þannig að á endanum gat ég sofnað.
Vaknaði kl. 07:00 í morgun og gat ekkert sofnað aftur, las Moggan og beið eftir lækninum mínum honum Ársæli. Hann hafði ekkert nema góðar fréttir að færa mér, ég væntanlega losna við legginn á morgun. Skreiddist framúr um tíuleitið og rölti hér um ganga svona til þess að koma meltingarstarfseminni almennilega í gang, það bar lítinn árangur en þetta kemur.
Sigga hringdi áðan var að leita frétta sem voru ekki nema góðar fréttir. Þessum degi hefur verið nánast eytt í tóma leti, reyndar kláraði ég að gróf klippa videomyndina og ætla að fínissera hana þegar ég kem heim. Það er óhætt að segja að mamma gamla sé að verða “smá” rugluð hún hringdi í mig áðan og sagðist ætla að koma. Nú ég beið eftir henni í u.þ.b. klukkutíma og aldrei kom hún. Sú gamla var að hringja rétt í þessu og hafði þá farið vestur á Landakotsspítala en þar kannaðist náttúrulega engin við að ég væri þar. Skildi sú gamla hafa farið vestureftir af gömlum vana eða hvað ekki veit ég það, það eru nú ekki nema 40 ár síðan amma dó. Þetta var illa sagt en hvað á maður að halda. Annars hef ég ekki verið í miklu skriftarstuði í dag og eftirtekjan því heldur rýr. Þessi dagur hefur verið heldur tilbreytingarlaus en vonandi verða þeir ekki margir fleiri. Nóg að sinni og höldum áfram á morgun.

29. júlí 2004 Það er aldrei flóafriður á þessum spítölum, vakinn upp kl. 06:00 “ég er kominn til að taka legginn” sagði hjúkkan og viðhafði snör handtök og frelsaði “fermingarbróðurinn”. Þá hlýtur að líða að því að þeir fari að henda manni út héðann. Ég á reyndar eftir að hitta lækninn en þeir hljóta að fara að birtast fljólega á hefðbundnum stofugangi. Jæja þá eru þeir búnir að koma og ef allt gengur vel í dag má ég fara héðan á morgun. Þannig að ég verð bara að treysta á guð og lukkuna með það. Skellti mér í sturtu og er eins og nýr maður á eftir. Mikið er ég feginn að það er svoddan skítaveður úti, þá sættir maður sig betur við að eyða deginum hér en ella. Búinn að vera eins og jójó á þið vitið og ekkert gengur, og ég að verða verulega svartsýnn. Best að bíða og sjá hvað læknarnir segja döö.
Nú er ég ekki hress - leggurinn kominn í aftur og verður að vera næstu vikur kannski 3-4, það verður bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Sigga var ekki hrifin þegar hún frétti þetta. Það er eins og það er. Ræddi við Geir lækni hér um horfur framundan og gerði hann mér grein fyrir þeim. Eftir það samtal er ég nú ekki allt of bjartsýnn. Jæja, best að hætta þessu svartsýnisrausi og hugsa um eitthvað annað.

30. júlí 2004 Svaf fjandanum verr í nótt og var því ansi slæptur þegar ég vaknaði um kl. sjö í morgun. Það var þó bót í máli að ég var á leiðinni heim og var það eini ljósi punkturinn.

Kvaddi herbergisfélaganna upp úr hádeginu og hélt út í rokið.

26 júlí 2004

Lundinn góður eða þannig

Lundinn smakkaðist vel í gær, herramannsmatur eða þannig. Hér sit ég nú einn í kotinu Sigga fór með tendó að skoða framkvæmdir austur í bústað og ætla að vera þar eitthvað fram eftir degi. Ég hins vegar ætla bara að slappa af í dag en á morgun á ég að mæta í aðgerðina sem talað var um í fyrstu færslu. Það leggst bara vel í mig og vonandi verður þetta vandamál ekki að plaga mig næstu árin. Meira um það síðar.

25 júlí 2004

Nammi namm

Hér verður lundaveisla í kvöld, annars á bara að taka þessu rólega í dag.

24 júlí 2004

Fastir liðir eins og venjulega

Jæja, ekki gat maður verið lengi í burtu frá vinnu eða þannig. Ég er semsagt kominn í vinnuna reyndar bara til að leiðbeina strákunum smáræði. Þetta verður ekki langt stopp. Á eftir verð ég svo að skreppa uppí Krika og heilsa uppá Stínu Halaformann en hún á afmæli það er nú það minnsta sem ég get gert.

Afmæli formannsinns

Fín veisla hjá Stínu uppí Krika. Veðrið eins og best varð á kosið og mikill gestagangur. Annars hefur deginum verið eitt í algjörri leti.

23 júlí 2004

Síðan síðast

Eftir að síðasta færsla var sett inn þá er ég kominn heim en á að fara í aðgerð næstkomandi þriðjudag. Vonandi gengur það allt vel fyrir sig.

Spítalasagan hin fyrri

17. júlí 2004
Hvað á maður að gera þegar nægur er tíminn og aðeins beðið eftir því að eitthvað gerist. Já hér sit ég á sjúkrastofu, get svo sem sjálfum mér um kennt. Búinn að eyðileggja “pípulögnina” kannski ekki alveg en svona hér um bil. Þetta hefur maður upp úr áralöngum trassaskap. Nú var bara einfaldlega svo komið að ekki var hægt að draga þetta lengur, þegar ég var hættur að sofa á næturnar, vaknaði 4-5 sinnum til að fara að pissa, og svo bætist við að það voru stundum blæðingar úr “görninni”. Nei snúum okkur að einhverju skemmtilegra heldur en að tala um þetta. Hvernig væri að reyna að skrifa sig út úr þessu? Ekki svo að skilja að ég telji mig hafa neina gasalega rithæfileika en eitthvað verður maður að gera í stað þess að sofa hér bara allan daginn meðan beðið er eftir því hvað þessir læknar ætla eiginlega að gera við mann.

Bið það er ekki það skemmtilegasta tíminn verður endalaus og maður veit ekkert hvað á við hann að gera, jú það er hægt að skrifa sig frá þessu og reyna að drepa tímann þannig. Það er nú einu sinni þannig að ef eitthvað er haft fyrir stafni þá líður tíminn fljótar. Maður er þá ekki að hugsa um hvort manni sé illt þarna eða hérna, það gerir maður ósjálfrátt þegar legið er útaf og starað út í loftið. Ekki svo að skilja að ég sé nein hamhleypa til verka, en að liggja svona og gera ekki neitt sólarhringum saman það er óþolandi, svo ég bað Siggu um að koma með tölvuna svo ég hefði eitthvað til að dunda við meðan beðið er eftir því hvað á að gera.
Svona það má ekki stoppa, þá koma bara verkirnir til baka og einbeitningin hverfur. Reyndu að láta þér detta eitthvað í hug drengur til að skrifa um ekki geturðu setið hér og bullað við sjálfan þig bara til að drepa tímann. Jú það er nú einmitt það sem ég hef hugsað mér að gera. Þetta eiga ekki að verða nein gáfuskrif heldur aðeins það sem kemur upp í hugan í það og það skiptið. Mér er farið að verða ansi kallt á fótunum þeir dingla utan í járngrind á rúminu svo lítill blettur á kálfunum veður skít kaldur. Það er ekki nokkur leið að liggja útaf við þessi skrif þá liði mér alla vega mikið betur og ég er farinn að þreytast í bakinu. Alveg er þetta makalaust ég má ekki stoppa þá fer mig að verkja hér og þar, mér finnst ég þurfa að pissa en koma engu frá mér, sem er í raun tóm ímyndun það rennur stoðugt frá mér.
Talandi um það í gær var ég skíthræddur við það að fá legg, en svo var þetta bara ekkert mál. Reyndar finn ég til svolítilla óþæginda af honum en það er ekkert til að fárast yfir. Ég var búinn að heyra þvílíkar tröllasögur af því að þetta væri svo sárt sem það reyndist svo ekki vera. Jæja loksins tókst mér að sofna fyrir nóttina og svaf þokkalega þangað til að ég vaknaði upp um kl. 1:30 alveg hreint í spreng. Sama tilfinning og svo oft áður mér fannst ég ekki koma neinu frá mér. Það er nú reyndar byggt á misskilningi. Það leið u.þ.b. hálftími áður en ég hringdi til að losa mig undan þessari óþægindatilfinningu. Hjúkkan lét mig hafa einhverja pillu sem ég gleipti og von bráðar leið mér ögn skár og náði að sofna aftur. Þessi fjandans óvissa er alveg að drepa mig. Hvað á eiginlega að gera í mínu tilfelli eða á að gera nokkurn skapaðan hlut annað en að þræða í mig legg. Fjandi er óþægilegt að vita ekki neitt. Mér finnst ég vera hérna í hálfgerðu tilgangsleysi hefði fjandakornið alveg getað verið heima þessa daga. Nei ekki þessa svartsýni hún gengur ekki það verður bara að taka þessu eins og það er og sjá hvernig fram vindur. Það kom læknir áðan reyndar ekki sá sem á að sjá um mig, sá heitir Ársæll og er ekki væntanlegur fyrr en á morgun. Þannig að enn bíð ég í óvissu og veit ekkert hvað verður gert. Vonandi þarf ég ekki að hanga lengi í óvissu á morgun en þó veit maður aldrei þegar heilbrigðiskerfið er annars vegar. Það er eitt sem fer helvíti mikið í taugarnar á mér um leið og ég sest upp þá er eins og ég þurfi að míga og það strax, kannski er þetta bara ímyndun vonandi er þetta það. Þetta er búinn að vera alveg ömurlegur dagur, ég er búinn að vera að drepast síðan um hádegi er ég reyndi að skíta, þá hljóp allt í baklás byrjaði að blæða og mér finnst að ég sé að míga á mig. Svona er þetta búið að vera núna á annan tíma. Nú er ég spældur Árni Sal var að hringja og sagði að Sigrún Sól hefði viljað fá mig í prufutöku vegna Bjólfskviðu en því miður þetta er næstkomandi þriðjudag og engar horfur á því að ég geti verið þar. Skildi ég koksa á því að hætta að reykja, hef alla vega ekkert reykt síðan á hádegi á föstudag, reyndar gæti pirringurinn stafað af nikotínskorti líka. Fjandinn hafi það að ég fari að biðja um plástur nei þreyjum þorrann og góuna og sjáum hvað verða vill. Það verður saga til næsta bæjar ef ég næ að hætta að reykja. Eiginlega var ég búinn að lofa mér því að nota þetta tækifæri. Mikið andskoti getur maður étið þrátt fyrir að hreyfa sig nánast ekki neitt. Reyndar röltli ég mig hérna fram áðan eftir að Sigga kom með inniskóna en þeim hafði ég gleymt. Nú er um að gera að drepa tímann því ekki nenni ég að fara að sofa strax. Þó má segja það að ég hafi sofið með skásta móti undanfarið og náð sæmilegri hvíld. Sigga var að hringja henni leiddist og vantaði einhvern til að tala við. Hún hefur miklar áhyggjur en ég reyndi að hugga hana og sagði að ég gæti aðeins kennt sjáflum mér um hvernig komið væri. Hún hafði varað mig við fyrir löngu en ég hlustaði ekki eða réttara sagt gerði ekkert í málinu.

19. júlí

Þá er ég loksins búinn að hitta lækninn þ.e.a.s. Ársæl, þetta reynist þá vera litli bróðir Benna Kristjáns en Sæla sá ég síðast sem pínulítinn patta með hor eða þannig fyrir ca. 30 árum. Það á að taka mig í speglun og eitthvað fleira sem á eftir að koma í ljós. Annars hef ég það bara sæmilegt alla vega eins og er nema ég er ekki farinn að geta “sketið” ennþá. Ég reyni að drepa tímann með einhverju gæti verið að ég reyndi að horfa á eins og eina mynd nema maður taki flugið t.d. austur á Egilsstaði. Flugið varð reyndar tekið á Stykkishólm. Jæja nú er eitthvað farið að gerast hjúkkan kom hér áðan og sagði að ég yrði að fasta. Það á að ómskoða á mér nýrun og kominn tími til að eitthvað fari að gerast maður er búinn að hanga hér nógu lengi. Ég talaði við Sigrúnu Sól áðan og þetta er bitastætt hlutverk sem hún er með í huga sem sagt eitthvað meira en statisti í þetta sinn. Ég á að tala við hana á morgun ef ég skildi vita eitthvað meira um framhaldið hérna. Ég fór í skoðunina en veit í sjálfu sér ekkert hvað kom út úr henni fæ kannski að vita það á morgun. Vona bara að það sé ekkert alvarlegt en það verður að koma í ljós. Ninna og Sigga komu og dvöldu hér í um það bil klukkutíma en ég gat ekki sagt þeim neitt nýtt. Andsk.. Wordið er búiða að vera til leiðinda með því að neita nánast að fara í gang fyrr en í 100 tilraun. Það er best að athuga þetta þegar og ef ég slepp héðan út. Væntanlega verð ég að kaupa helv… pakkan og setja hann uppá nýtt og kannski kominn tími til. Hvurn andsk... á ég að gera í þessu skítveseni. Það gengur ekki neitt ég er að verða eins og útblásin belja. Keyrði repair permissions á diskinn alla vega er Wordið til friðs eins og er. Hvað það verður lengi veit ég ekki en er á meðan er. Mikið er andsk… fúlt að komast ekki á netið héðan af þessari stofu það gæti nú aldeilis stytt manni stundir. Líklegast er maður bara einfaldlega orðinn netfíkill nei svona í fullri alvöru þá gæti það komið sér vel að hafa slíkan aðgang héðan. Ég verð að muna eftir að spyrja Ársæl út úr í fyrramálið svo ég geti látið Sigrúnu vita því ég er helvíti spenntur fyrir þessu hlutverki. Í þessu fellst náttúrulega ákveðin viðurkenning sem um að gera er að nýta sér ef hægt er. Svo langar mig bara að fá að vita hver fram-vindan verður.

20. júlí

Loksins, loksins náði ég að skíta og mikið andskoti leið mér vel á eftir þetta gerðist kl. 02:15 og tók drjúga stund. Svaf svo þokkalega fram undir morgun. Ársæll kom um morgunin á stofu gangi og sagði einfaldlega þú mátt fara heim hann Magnús skýrir þér nánar frá framgangi þessa. Ég bara gapti jæja ákvað að bíða eftir Magnúsi (svæfingarlækni) sem kom síðan og talaði við mig. Hann sagði að þeir vildu leyfa nýrunum og blöðrunni að jafna sig en svo yrði gerð aðgerð (Turp). Ég var sendur í lungnamyndatöku og hjartalínurit. Ég var ákveðin í að gera mér ekki neina "rellu" út af þessu og taka því sem að höndum bar.