27 júní 2005

Aðgengið að batna - sumarbústaðaferð

Eftir svona 3 - 4 daga verður hægt að segja að það verði orðið vel fært hér heim til okkar en nú er frágangur á lóðinni hér fyrir utan aðalinnganginn kominn á loka stig. Aðgengið ætti að vera orðið gott undir næstu helgi.
Annars er maður enn að jafna sig eftir Akureyrar ferðina, (allt of mikið junk fæði) og bara ferðaþreyta.
Núna eftir að ég var búinn að vinna skrapp ég í sumarbústaðinn hennar tengdó í grill og fl. Átti þar notalega kvöldstund með fjölskyldunni. Þetta er í fyrsta skipti í sumar sem ég fer austur og held að í þessi tæpu 30 ár sem ég hef komið þangað hafi ég aldrei verið svona seint. Yfirleitt hefur maður farið uppúr miðjum maí jafnvel fyrr.
Sigga varð eftir fyrir austan en hún ætlar að vera þar með mömmu sinni í 2 - 3 daga skilst mér. Ég hef það þá bara eftir minni hentisemi á meðan og nýt þess í botn.

26 júní 2005

Leikum núna - leiklistarhátíð BÍL

Það sem fer hér á eftir eru nokkrar hugleiðingar sem ég skrifaði fyrir norðan en við vorum að koma í bæinn, þessi vika hefur verið hreint stórkostleg, mikið að gera og þeir sem ég var hugsanlega búinn að lofa að heimsækja á Akureyri eru beðnir velvirðingar.
Leikum núna - dagur 1
Þá erum við hjónakornin komin til Akureyrar til að taka þátt í alþjóðlegri leiklistarhátíð áhugamanna. Hátíðin stendur yfir dagana 22. til 26. júní.
Við lögðum af stað úr Mosfellsbænum um kl. 15:30 og vorum komin til Akureyrar rétt um kl. 21:00. Við gerðum hálftíma stopp á leiðinni.
Þegar til Akureyrar var komið var fyrst komið við í Húsinu Hafnarstræti 73 en þar þurftum við að sækja gögn vegna hátíðarinnar. Passa inn á allar sýningar, miða á lokahóf sem verður í Freyvangi á laugardag.
Við erum ekkert farinn að sjá af félögum okkar úr "Halanum" en við verðum 6 alls hér á Akureyri.
Upp úr kl. 22:30 var hringt í okkur og spurt "var ekki partíið hjá þér"? og voru það hinir "Halarnir" sátum við síðan hér nokkuð fram eftir kvöldi að spjalli og smá "drykkju".
Leikum núna dagur 2
Þá erum við búinn að sjá þrjár leiksýningar í dag. Það þykir nokkuð gott. Dagurinn byrjaði með morgunmat. Síðan var farinn smá ferð niðrí bæ, en ég var eitthvað slappur í magnanum svo við fórum heim aftur. Við fórum síðan aftur niðrí bæ og sáum formlega setningu leiklistarhátíðarinnar. Fyrsta sýning dagsins var svo Konur í sýningu Jonava leikfélagsins frá Litháen. Þetta var stórskemmtileg sýning þó svo að við skildum ekki baun í textanum. Leikur hópsins var stórkostlegur á ýmsan hátt og útfærslur á atriðum stórskemmtilegar.
Næsta sýnig var svo Dýragarðssaga (Zoo Story) eftir Edward Albee í flutningi Leikfélags Hafnarfjarðar. Stórgóð sýning hjá þeim félögum Gunnari Birni og Guðmundi Lúðvík.
Kvöldið var svo endað á því að fara að sjá Patataz eftir Björn M. Sigurjónsson í flutningi Hugleiks. Þetta fannst mér vera mögnuð sýning vel útfærð og mikill og þarfur boðskapur.
Leikum núna dagur 3
Þessi dagur var tekin tiltölulega snemma með morgunverði. Síðan var farið niðrí Hús og náð í þá miða sem vantaði á þær sýningar sem við höfðum áhuga á að sjá.
Fyrsta sýning dagsins var Taktu lagið Lóa eftir Jim Cartwright í sýningu Freyvangsleikhússins. Þetta var flot sýning. Næsta sýning var svo 40% af engu í flutningi Cirkity Gravikus frá Gautaborg í Svíþjóð. Þarna ægði öllu saman þögult leikhús, tónlist, dans og sirkus. Stórgóð skemmtun, en útfærslur ekki alveg gallalausar. Það var eins og stundum vissu þau ekki alveg hvað þau væru með í höndunum. Eins gæti ég trúað að þau hafi ekki skoðað næganlega vel það rými sem þau höfðu til að sýna.
Leikum núna dagur 4
Þetta hefur verið hálfgerður letidagur, en þó voru tvær sýningar í dag. Fyrri sýningin var Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson í flutningi Leikfélags Hörgdæla. Mér fannst þeim takast vel alla vega skilaði stressið sér vel til áhorfenda. Seinni sýningin var svo Davíð Oddsson superstar í flutningi Leikklúbbsins Sögu. Æ ég veit ekki hvað ég á að segja um þá sýningu. Nýting á leikrými var mjög skemmtilega útfærð, en mér fannst höfundur (sem er leikarahópurinn) stundum skjóta yfir markið í ádeilu sinni á íslenskt samfélag. Kannski er maður bara orðin svona gamall og íhaldssamur ;-) Það er samt gott að vita að enn er til pólitískt leikhús á Íslandi. Við slepptum reyndar einni sýningu þennan dag en það var sýning Hugleiks og Leikfélag Kópavogs á Memento Mori, sem við vorum búinn að sjá í Kópavogi fyrr í vetur. Það er hreint mögnuð sýning eitthvað sem situr algjörlega fast í minningunni.
Leikum núna dagur 5
í dag var byrjað snemma, með því að fara á fyrirlestur Berndt Ogrodnik um leikbrúður en hann var haldinn í Myndlistarskólanum á Akureyri. Mjög fróðlegur fyrirlestur og skemmtilegur. Næst lá fyrir að ná í nokkrar nauðsynjar fyrir kvöldið áður en farið væri á gagrýnifund dagsins.
Þá var komið að fyrri leiksýningu dagsins sem var Birdy eftir Naomi Wallace í flutningi Leikfélags Hafnarfjarðar. Í einu orði sagt fannst mér þetta mögnuð sýning. Þessu næst var farið í einum spretti á næstu sýningu sem var Í allra kvikinda líkií flutningi Leikfélag Kópavogs, sýning byggð á sögum úr VIZ Þetta fannst mér skemmtilega einföld og vel útfærð sýning í alla staði.
Í kvöld verður svo lokahóf í Freyvangi, sýning á morgun og síðan haldið heim á leið. Nánar um það á morgun kannski.
Hvað hefur þessi hátíð svo skilið eftir sig? Jú, hún hefur sýnt okkur hvað hægt er að gera, hefur hópur eins og okkar verið á réttri leið? Ég veit það hreint ekki.
Leikum núna dagur 6
Ég var rifin upp úr minni þynku snemma í morgun, "við þurfum að fara ganga frá" sagði betri helmingurinn. Jæja, við í það en ég heimtaði að fá að liggja klukkutíma í viðbót í bælinu. Tiltölulega fljótlegt var að ganga frá dótinu útí bíl og skila af sér lyklum.
Þennan dag var aðeins ein sýning, en það var sýning leikfélags Selfoss á verki sem hópurinn samdi í samvinnu við leikstjórann og heitir Náttúran kallar þar sem teknar eru fyrir útilegu venjur landans. Þessi sýning náði enganveginn til mín allt of mikið unnið uppúr "klisjum" og einhvernveginn fannst mér ekki nóg kjöt á beininu. Aðrir áhorfendur skemmtu sér hið besta sýndist mér.
Við fórum síðan strax af stað að lokinni sýningu þannig að við vitum ekki hvað gagnrýnendum hátíðarinnar fannst. Kannski má lesa það á leiklist.is ?

24 júní 2005

Á Akureyri

Við erum stödd á Akureyri þannig að það verður ekki mikið bloggað þessa vikuna. Hef samt haldið dagbók yfir ferðina, sem mun birtast þegar við komum heim næstkomandi sunnudag.

20 júní 2005

Af vitlausri afgreiðslu

Það á ekki af manni að ganga með verslun við sum fyrirtæki, annar hvort fær maður enga afgreiðslu eða þá vitlausa. Hafið þið nokkurn tíma lent í svona lögðu?
Þegar þetta gerist og maður kvartar þá fær maður ekkert nema skæting í staðinn. Verst er ef um algjöra nauðsynjavöru er að ræða. Þá er eins og fjandinn verði laus. Jæja það er best að hætta þessum pirringi, dagurinn byrjaði ömurlega. Kannski ég verði í betra skapi seinnipartinn.
Það greiddist úr þessu leiðinda máli með vitlausu afgreiðsluna, þannig að nú ætti ég að geta brosað út í annað.
Ég er alltaf að finna það betur og betur, hvað það er gott að vera í sveitinni. Lóðaframkvæmdir ganga þó fremur hægt þannig að aðgengið að húsinu hjá okkur hefur lítið batnað, því miður.

19 júní 2005

Æi, þessir dagar


Þá er þessi dagurinn liðinn, byrjaði nú ekki allt of vel hjá mér en smá slys (ekki alvarlegt) orsakaði það að ég varð hálftíma of seinn í að dæma á móti í morgun (18. júní). Það lukkaðist nú allt saman á endanum. Að móti loknu var haldið heim en við áttum von á fólki í mat. Grillaður var grísahnakki og lukkaðist það allt vel. Kvöldinu var eytt í smá netvinnu, sem hafði setið smávegis á hakanum. Það er kominn yfir mig einhver sumar leti, ég nenni andsk.... ekki að gera handtak nema brýna nauðsyn beri til. Er til einhver lækning önnur en vítamín?

18 júní 2005

Þjóðhátíð í sveitinni


Mikið var þetta notalegur þjóðhátíðardagur hérna í sveitinni. Fín dagskrá bæði úti og inni en hátíðin var haldinn við Hlégarð. Ég hitti þó nokkuð af fólki sem ég kannaðist við. Veðrið spillti nú ekki fyrir. Sagði við mömmu þegar hún spurði hvar við hefðum alið mannin í dag að sjálfssögðu hefðum við fylgst með hátíðarhöldunum hér í bænum. Kvöldinu var svo eytt í notaleg heitum með góðum vinum en Sigga fór snemma til náða enda orðinn þreytt eftir daginn. Ég hins vegar þarf að skreppa í "bæinn" á morgun og dæma á móti sem halda á í fyrramálið en meira um það síðar.

16 júní 2005

Velheppnaðir tonleikar

Hádegistónleikarnir gengu mjög vel og var gerður góður rómur að þeim. Við félagarnir megum vel við undirtektir áhorfenda una. Þetta verður væntanlega endurtekið síðar. Eftir tónleikana skutluðumst við Ragnar Gunnar í vinnuna í blíðunni. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég næ eitthvað að nota þessa græju síðan ég keypti hana.

13 júní 2005

Myndir birtar á netinu af nýja heimilinu okkar

Þeir sem ekki hafa heimsótt okkur ennþá geta fengið smá hugmynd hvernig lítur út hjá okkur með því að smella hér. Annars er allt við þetta sama, einhver smá lumbra í mér þannig að ég var heima í dag.

11 júní 2005

Legið í leti - fyrsta grillveislan

Þetta er búinn að vera meiri letidagurinn. Hann endaði þó vel, við grilluðum hér úti áðan og tókst stórvel. Sátum síðan í kvöldsólinni fram undir kl. 21:00. Í gær fórum við í grillveislu með vinnufélögum mínum og var veislan hér í nágreni við okkur. Þetta hentaði okkur mjög vel rölt útí næstu götu og svo aftur heim að veislu lokinni.

07 júní 2005

Aðgengið að batna

Við erum kominn vel á veg með það að koma okkur fyrir og gengur það mun betur en ég hafði þorað að vona.
Þá er vinna við lóðaframkvæmdir hafnar og verið að undirbúa malbikun á götunni fyrir utan. Aðgengi að húsinu er semsagt að batna vonandi.
Það var töluverður gestagangur hjá okkur þessa helgina, enda ekki á hverjum degi sem maður flytur.

02 júní 2005

Samband komið á aftur - ekki leti

Það er ég viss um að allir sem lesa þetta sem ég hef verð að skrifa hér halda að nú nenni maður ekki lengur að skrifa eða svara. Það á ekki við rök að styðjast heldur er ástæðan sú að ég eða við höfum verið sambandslaus við netið í heila viku. Já heila viku, og þið getið ímyndað ykkur að ég var ekki sáttur við það. Núna fyrir u.þ.b. klukkutíma síðan komst ég loksins í samband.
Við höfum verið að koma okkur fyrir og ekki skil ég hvað maður er að gera við allt þetta dót og drasl sem fylgir manni. Hvurn andsk.... er maður að gera við þetta allt. Þar sem geymslurnar eru ekki tilbúnar þá hentum við öllu geymslu dóti inn í litla herbergið sem er orðið smekk fullt bæði af okkar dóti og eins dóti frá tengdamömmu og Dolla. Þetta lagast væntanlega næstu daga þar sem geymslurnar eru að verða tilbúnar.
Það hefur valdið Siggu töluverðum erfiðleikum að lyftan er ekki kominn í gagnið, en það eru víst tveir þrír dagar í að hún verði komin í gang.
Það verður að segjast eins og er að okkur líður hreint stórvel hér í "sveitinni" svo ekki sé meira sagt. Við viljum þakka öllum góðar kveðjur og hamingju óskir sem við höfum fengið, og eins líka þeim sem hafa komið að flutningnum með beinum hætti hvort sem það var að bera mublur og dót inn eða koma því fyrir eftir á.