25 október 2006

Enn að nördast.

Áfram held ég að nördast, nú er lokið uppsetningu vefsíðu fyrir Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að segjast eins og er að það tók ekki langan tíma eftir að verkið komst af stað. Ég er að nota Typo3 vefumsjónarkerfi í síðuna og er smátt og smátt að læra betur á það. Held að mér eigi bara eftir að líka það vel eftir því sem ég nota það meira. Annars er nú alltaf skemmtilegast að skrifa beint í kóða í venjulegum textaritli eða þannig, það er svo andsk.... krefjandi. Verst hvað maður er orðinn latur við það.
Verð meira og minna á námskeiði næstu tvo daga í sambandi við vinnuna og er það bara ágætis tilbreyting. Annars er allt við það sama.

21 október 2006

Ég er nörd

Ég held að ég sé að komast á þá skoðun að ég sé algjört nörd. Hvað er ég svo sem að gera mér til dundurs eftir vinnu. And... hafi það að ég nenni að glápa á sjónvarpið. Nei, þeim andskota nenni ég ekki enda segir Sigga "þú nennir aldrei orðið að horfa á sjónvarpið með mér". Eins og hún geti það ekki hjálparlaust.
Ég hef verið að vinna að tveim vefsíðum samtímis núna undanfarið, önnur fyrir Kiwanisklúbbin Geysi en hin er fyrir Sjálfsbjörg félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Síðan fyrir Kiwanisklúbbin hér í sveitinni er búin en hin er að klárast. Ég er semsagt algjört Nörd.
Ég ætla að bæta við einni krækju hér á síðuna en það eru myndir sem ég tók í Kína árið 1977. Í fyrra vetur á skannaði ég þær allar inn og á ég nú afrit af þeim á geisladiski en þetta var allt á 35mm slides filmu. Myndirnar hafa bara geymst nokkuð vel. Mig minnir að sumir séu búnir að bíða eftir að sjá þær í tæp 30 ár eða þannig.

16 október 2006

Bévað útstáelsi á karlinum

Í gær - nei fyrradag þetta er jú skrifað kl. 00:49 þá vorum við hjónakornin á Haustfangaði Sjálfsbjargar og ÍFR. Samkoman sú tókst ágætlega og ég meira að segja var bláedrú. Þið ráðið hvort þið trúið því en þetta er nú dagsatt.
Meira af útstáelsi því á föstudags eftirmiðdag og fram á kvöld reyndar var ég að skemmta mér með vinnufélögum en haldið var í hestaferð og eða gönguferð. Ég hafði nú aldeilis ætlað að fara á bak en það verður víst að segjast eins og er að ég koksaði á því. Helv... eymingi.
Í gær (sunnudag) þá hélt bogfiminefnd ÍFR fund erum að byrja að plana ferð til Þýskalands næsta sumar að heimsækja góðvini okkar í Dannenberg. Þetta er nú allt á algjöru byrjunarstigi ennþá.
Ég lét nú loksins verða af því að reka endahnútinn á vefinn minn þ.e.a.s. Íslenska bogfimivefinn færði hann á nýjan stað og hefur hann nú fengið vefslóð við hæfi www.bogfimi.net sem er náttúrulega mun betri en var áður. Held ég hafi gert góðan "díl" þar.

09 október 2006

Félagsmálastarfið á fullu

Það hefur verið nóg að gera þessa helgi. Laugardagskvöldið voru stjórnarskipti í Kiwanisklúbbnum Geysi, það varð hin besta skemmtan. Á sunnudag hélt svo bogfiminefnd ÍFR sinn aðalfund. Það var semsagt nóg að gera í félagsmálunum þessa helgina.
Við hjónakornin vorum reyndar boðin í "brunch" á sunnudagsmorgunin til góðra vina og hafi þau þökk fyrir.
Annars er allt við það sama gamla góða rútínan þið vitið

02 október 2006

Fór í allt annað en ætlunin var

Nýliðin helgi fór einhvernveginn í allt annað en ég hafði ætlað mér. Það er bara svona þegar maður sest niður og ætlar aðeins að fikta þá get ég ekki hætt. Það sem ég var að fikta við er reyndar vefur sem ég setti upp fyrir fjöldamörgum árum og ég af stórmennsku kallaði "Íslenska bogfimivefinn". Nú er hann semsagt kominn í nýjan búning en er reyndar ekki fullkláraður ennþá. "Oggu pínulítið eftir" Sagan á bak við þennan vef er svolítið skemmtileg, en þannig var að fyrir margt löngu var ég á námskeiði í vefsíðugerð og átti að skrifa vef um eitthvað. "Eitthvað?" "já eitthvað" var svarið. Þessi vefur varð síðan afraksturinn þetta var það eina sem mér datt í hug. Þá vitið þið það.
Ég er nú samt feginn að þetta er búið í bili þó að ég hafi ætlað að gera allt annað þessa helgi.