23 desember 2005

Jólin að koma


Það er greinilegt að jólin eru að koma, það er ekkert að gerast í bloggheimum annað en menn senda jólakveðjur þvers og kruss. Þetta eru dagarnir þar sem allt er í lægð og ekkert gerist. Ég held að við hérna í "sveitinni" séum búin að öllu og nú er bara að koma öllu á sinn stað.
Skrapp í bæinn áðan með Siggu en hún þurfti að erindast smá og ég notaði tækifærið á leiðinni heim til að kaupa jólagöfina hennar. Þá er sá höfuðverkurinn búinn. Á heimleiðinn var litið til mömmu, en Sigga vildi hitta þær, (mömmu og Ingibjörgu) áður en þær færu austur.
Sigga er farinn að bauka við að skreyta jólatréð, það verður hennar deild. Þetta er reyndar í fyrsta skipti núna í þrjú ár sem við erum með jólatré, það var bara ekki pláss þar sem við vorum áður. Nú er aftur á móti nóg pláss til að hafa tré. Skildi hún nokkuð vera búinn að gleyma þessu þ.e. hvernig á að skreyta jólatréð? Það tókst að skreyta tréð eftir smá bras og hjálp frá mér og það lítur svo ljómandi vel út.
Nú er bara eftir að setja upp sparifésið og vera hlíðinn og góður strákur yfir jólinn.
Veit ekki hvort ég skrifa eitthvað hérna yfir jólin ef ekki þá óska ég öllum sem hafa haft fyrir því að lesa þetta gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

21 desember 2005

Hvað eru hinir að bulla á blogginu?

Núna hefur maður bara legið yfir því sem allir hinir hafa verið að bulla, en datt þó niður á þetta Podcast svona til að koma manni í jólaskapið. Þetta er hin ágætasta syrpa. Merkilegt fyrirbæri þetta, ég hef dottið niður á fantagóða tónlist bara ef maður nennir að Googla svolítið, svo er þetta bara svo fjári gott form. Kannski maður eigi eftir að gera eitthvað svona sjálfur seinna meir. Gaman var að heyra hugleiðingar Salvarar Gissurardóttur um hvaða íslenskt orð ætti að nota yfir þetta fyrirbæri, þó ekki litist mér á hugmyndirnar sem þar komu fram.
Heimsótti mömmu gömlu í dag, hélt að hún væri að fara austur á morgun, en hún fer ekki fyrr en í vikulok. Sigga var hjá henni og hélt henni félagsskap. Annars bara góður dagur.

19 desember 2005

Að byrja uppá nýtt - eða hvað

Ég hef verið að hugsa, hvað ég á eiginlega að gera með þessa síðu mína. Ég er að verða eitthvað svo strand með hana. Ekkert er að gerast sem vert er að segja frá, reyndar var kannski meiningin að láta hér allt flakka. Einhvern veginn hef ég aldrei náð því að byrja á því almennilega.
Maður þarf að byrja á því að punkta hjá sér svona hugdettur. Það er kannski best að byrja og snúa alveg við blaðinu.
Mikið er annars gaman að lesa greinar þar sem menn tapa sér alveg í pólitískum rétttrúnaði, það má ekki segja hlutina svona heldur hinsegin. Undarlegust verður lesningin þegar viðkomandi hefur ekki hundsvit á því málefni sem hann er að skrifa um.
Það sem mest er greinilega skrifað um á blogginu í dag er þetta með prestin og jólasveininn, ég sem hélt að prestum ásamt lögfræðingum væri greitt fyrir að "ljúga".
Annars var ekki alveg meiningin að hætta að skrifa um það sem hér gerðist. Sigga hélt heljarinnar afmælisveislu á laugardaginn og voru held ég um 12 manns þegar mest var, þó var hún bara já best að tala ekki um það, en það verður stórt næst.

16 desember 2005

Jólaundirbúningur á fullu

Átakalaus vika er liðin, reyndar var upphaf hennar frekar rólegt hjá mér þar sem ég lá í flensuskít framan af vikunni.
Ég var að koma af árlegum jólafundi Kiwanisklúbbsins Esju og var hann fjölmennur. Man ég ekki til að mæting hafi verið svona góð í mörg ár. Hvort maginn á mér þolir hangikjötsveislu tvisvar sama daginn verður að koma í ljós, en það var jólamatur í vinnunni í dag. Alla vega er maður ekki illa haldinn.
Hún Sigga mín verður árinu eldri á morgun og er nú að skreyta og snurfusa hér um allt, en það hefur verið venja hjá henni lengi að jólaskreytingarnar flestar skuli vera komnar upp á afmælinu hennar.

11 desember 2005

Afmælisveisla - gramsað í dóti og fl.

Þetta er búinn að vera ósköp notaleg vika. Tíminn líður allt of hratt eins og ég hef áður minnst á. Við hjónakornin fórum í 30 ára afmæli Kiwanisklúbbsins Geysis í gær og var það mikil veisla og fjölmenn. Ég skemmti mér mjög vel og svo held ég að hafi verið um Siggu líka. Einn góður félagi minn dró hana út á dansgólfið og þaðan kom hún alveg lafmóð til baka eftir drjúga stund. Við vorum nú ekki margir Esjufélagarnir þarna en við alla vega skemmtum okkur vel. Hins vegar fór ég að finna til óþæginda þarna um kvöldið, sem skýrðist morgunin eftir en þá var ég kominn með einhvern fjárans flensuskít.
Sigga er búinn að vera hálf eyðilögð sl. viku vegna þess að hún saknaði ýmislegs jóladóts, búinn að vera að leita að því en fann hvergi. Þetta voru t.d. aðventuljós gluggaskreytingar og fl. Við fórum niður í geymslu áðan og nú skildi gera úrslita tilraun til að finna þetta. Viti menn þetta lá næstum því fyrir framan nefið á okkur, ég veit eiginlega ekki hvernig þær hafa leitað um daginn mæðgurnar. Alla vega er allt fundið og kella mín getur hætt að hafa áhyggjur af þessu. Aðventuljósin kominn út í glugga - svona bara assgoti fín.

06 desember 2005

Tíminn líður allt of fljótt

Ja, nú er úr vöndu að ráða. Hvort á ég að fara á æfingu í boganum í kvöld eða á stjórnarfund hjá CP félaginu? Ætli það verði ekki stjórnarfundurinn, ekki það að mér þyki þeir skemmtilegri heldur að hann er aðeins einu sinni í mánuði en æfingarnar eru þrisvar í viku.
Annars er þetta búinn að vera nokkuð drjúgur dagur. Fór áðan með mömmu til læknis þ.e. ég og Magga systir og þar var sú "gamla" skoðuð hátt og lágt. Ekki orð um það meir nema gott.
Mér finnst alveg óþolandi hvað tíminn líður hratt, það verða komnir "páskar" áður en maður veit af. Jú ég veit jólin eru framundan en ég meinti hitt.
Þetta datt bara si svona í kollinn á mér, bara láta vita af því að ég er lifandi ennþá og ekki alveg hættur að bulla hér.

05 desember 2005

Jólaundirbúningur að hefjast

Þetta er búinn að vera rólegheita vika, ekkert sérstakt svona frásagnarvert.
Jólaundirbúningurinn er að fara af stað en við höfum mest tekið því rólega með hann. Það er annars alltaf svolítið spennandi að finna út hvernig skreytingum verður best fyrir komið þegar á nýjan stað er komið. Þetta var ekkert mál þegar við vorum í Breiðholtinu, þá var allt á sínum stað held ég öll 22 árin sem við vorum þar. Nú er líka allt svo miklu stærra og þetta meira mál þannig séð.
Annars hef ég verið frekar latur við að skrifa nokkurn skapaðan hlut hérna undanfarið. Það er eflaust bara það að lífið er allt í svo föstum skorðum.