26 maí 2005

Flutt í "Sveitina"

Þá erum við flutt í sveitina. Það kom sveit röskra manna í gær og við drifum í þessu. Byrjað var um kl. 17:00 og við vorum búinn um kl. 20:00 að koma öllu dótinu inn. Þar sem geymslurnar eru ekki tilbúnar þá var allt geymsludót sett inn í litla herbergið þannig að það verður víst ekki nýtt undir neitt annað næstu dagana. Seinna í dag verður farið í það að þrífa í Þverholtinu svo hægt sé að skila því af okkur á morgun (vonandi). Ég var víst búinn að lofa því að birta myndir en í öllum hamaganginum í gær þá gleymdist myndavélinn í Þverholtinu þannig að því miður engar myndir.

23 maí 2005

Öllu pakkað niður

Það var mikið at hjá okkur um helgina. Þetta byrjaði á því að við Sigga pökkuðum niður öllum bókum og gengum frá því. Svo um hádegi á sunnudeginum kom mamma ásamt Möggu og Laufey. Þær pökkuðu niður öllu dóti úr eldhúsi og svefnherbergi og gerðu klárt til flutnings. Nú er varla hægt að hreyfa sig í íbúðinni nema eftir þröngum krákustíg á milli kassa. Svona verður þetta til miðvikudags eða fimmtudags en þá er stefnt að því að flytja allt uppeftir. Hafið bestu þakkir fyrir hjálpina.

19 maí 2005

Flutt um miðja næstu viku

Nú er komið í ljós að við getum flutt fyrr en við áætluðum. Flutt verður væntanlega um miðja næstu viku. Það liggur sæmilega ljóst fyrir að nú þarf að bretta upp ermarnar um helgina svo hægt verði að drífa í þessu.
Það vantar þó nokkuð uppá að aðgengi að húsinu uppfrá sé nógu gott en það hlýtur að koma næstu vikur. Við getum hreinlega ekki beðið lengur með að flytja.

16 maí 2005

Mikið að gera

Það er búið að vera mikið að gera þessa helgi. Vefsmíðin gekk vonum framar og má sjá árangurinn hér. Það virðist vera nokkuð ljóst að við byrjum að flytja í lok maí væntanlega 28 og nýtum þá helgi til að losa íbúðina hér. Svo hefur maður næstu viku þar á eftir til að koma sér fyrir á nýjum stað.

14 maí 2005

Notaleg helgi framundan - kannski

Jæja, nú verður reynt að slappa af þessa helgi, reyndar verður nóg að gera það er ekki það. Búðarrápið heldur væntanlega áfram, ásamt því að ég stend í uppsetningu reikninga Halans þessa helgi en þeir fara í endurskoðun um miðja næstu viku.
Svo þarf ég að leggjast í smá vefsmíði sem ég er búinn að trassa allt of lengi. Jamm það er nú það. Sigga er búinn að vera að drepast í maganum undanfarna daga og nú í kvöld keyrði um þverbak. Við fengum næturlækni hingað en hvort það hjálpar eitthvað veit ég ekki.

09 maí 2005

Komin að vestan

Aðalfundur BÍL í Hólminum reyndist hin besta skemmtun, eins og við var að búast. Það voru svosem engin stórtíðindi sem gerðust og þó. Bandalagið hefur fengið nýjan formann. Það er orðið ár og dagar síðan ég hef sungið jafn mikið og sl. laugardagskvöld, enda var maður hálf raddlaus lengi fram eftir sunnudeginum. Þar sem ég var fjarri hringiðunni hérna í henni Reykjavík þá verður maður eiginlega að spyrja þá sem hér voru frétta.
Ég veit ekki betur en að allt hafi gengið sinn vanagang hjá mér og mínum, en við hjónakornin vorum að ganga frá þátttöku okkar á leiklistarhátíðinni á Akureyri í sumar. Mér skilst á öllu að þar verði alla vega 4 - 5 aðrir Halar líka.

06 maí 2005

Þurstabit og flækingur

Ég er búinn að vera að drepast úr þursabiti sl. þrjá daga og er eiginlega búinn að fá nóg. Það er best að hætta að væla - ég þarf að skreppa vestur í Stykkishólm núna á eftir á aðalfund BÍL og kem ekki aftur fyrr en á sunnudag. Nánar um það síðar.

02 maí 2005

Austurbergið afhent

Við vorum að afhenda íbúðina í Austurberginu í dag, svo þá er sá kapituli lífsins búinn. Nú bíðum við bara eftir því að fá að vita hvenær hin verður afhent. Fleira markvert hefur svo sem ekki gerst í dag.

01 maí 2005

Lagstur í flensu - aftur

Ég náði mér í einhvern flensuskít byrjaði að finna fyrir þessu á föstudagsmorgun. Var nú samt í vinnu allan þann dag. Þetta flensustand kemur sér mjög illa því margt þurfi að gera þessa helgi. Fyrir það fyrsta eigum við að afhenda íbúina í Austurbergi á morgun og hefði ég viljað fara þangað og skoða hvernig ástandið væri. Krakkarnir sem hafa verið þar sl. þrjú ár fluttu núna rétt fyrir helgina.
Ég held að þetta sé í fyrsta skipti frá því að ég komst til vits og ára að ég fari ekki í 1. maí kaffi til mömmu, en þó er bót í máli að Sigga fór. Mamma leysti nöfnu sína út með pönnukökum sem mér voru færðar. Það þarf ekki að taka fram að þær runnu ljúflega niður.