31 janúar 2007

Af rannsóknum og fleiru

Það liggur við að það sé orðið viðburður að maður setji nokkurn skapaðan hlut hér inn nú orðið. Það er af sem áður var þegar skrifað var á hverjum degi. Nóg af þessu.
Ég var að koma frá því að sækja Siggu af Borgarspítalanum , úbs nei Landsspítalanum í Fossvogi heitir það víst í dag. Hún er búinn að vera undanfarnar tvær nætur í svefnrannsóknum þar. Í nótt eigum við svo að framkvæma súrefnismælingu heima og kemur þá í ljós hvort hún þarf að hafa súrefni einnig til viðbótar við öndunarvélarnar. Alla vega vona ég ekki því það getur verið andsk... hávaði í þessu þegar súrefnið er komið til viðbótar.
Annars er allt gott að frétta, ég á fullu í æfingum á nýju leikverki og gengur það vel. Væntanlega verður frumsýnt þann 24. febrúar sem þýðir afturá móti að ég missi af árshátíð TR. Það þykir mér fúlt en svona er þetta bara.

15 janúar 2007

Grasekkils standi að ljúka

Nú fer grasekkilsstandinu á mér að ljúka. Sigga var að hefja síðustu viku dvalar sinnar á Reykjalundi. Hún var reyndar lengur heima að þessu sinni en áður. Ég skutlaði henni þangað í morgun áður en ég fór í vinnuna. Hún ætlaði nú varla að nenna að fara - finnst þetta allt saman hundleiðinlegt. Ég ætla nú bara að vona fyrir hennar hönd að eitthvað gagn hafi verið að þessu öllu saman.
Það er allt komið á fullt í æfingum á nýju leikriti hjá Halaleikhópnum og ég með hlutverk reyndar ekkert rosalega stórt en fínt hlutverk samt. Það er semsagt nóg að gera þessa dagana.

05 janúar 2007

Nýtt ár og hvað svo?

Þá eru jólin að verða búinn og lífið að færast í eðlilegt horf. Frá því að hér var skrifað síðast hefur svo sem fátt markvert gerst. Jólin voru fín og áramót sömuleiðis.
Strax 2. janúar fór Sigga uppá Reykjalund en hún er þar til skoðunar og í þjálfun. Upphaflega átti hún að vera í tvær vikur en væntanlega verða þær þrjár. Þannig að fimm daga vikunnar er ég í grasekkilsstandi en hún kemur bara heim um helgar. Ég er búinn að hafa það fínt á meðan (engin til að nöldra í mér eða þannig). Þó verð ég að segja að stundum er þetta svolítið einmanalegt.
Ég er að verða svolítið latur við skriftir, kannski er það bara að svo fátt markvert er að gerast þessa dagana og ég hef enga nennu í að fara að blanda mér í þjóðmálaþrasið. Manni er kannski orðið skít sama enda engar horfur á neinum breytingum eða þannig.
Ég kíkti niður í Hala í gær, en þar var að hefjast samlestur á nýju leikriti eftir Ármann Guðmundsson. Leikritið sem heitir Batnandi maður samdi hann fyrir hópinn í tilefni af 15 ára afmæli Halaleikhópsins. Mér líst fjári vel á og hugsanlega verð ég með er samt ekki búinn að ákveða það endanlega það kemur í ljós um helgina. Meðan ég man - Gleðilegt nýtt ár öll sömul.

ps. breytti uppsetningu á vefnum þannig að nú geta allir sent inn komment án þess að þurfa að vera skráðir ég verð þá bara að vera duglegri við að henda út "rusli".