26 janúar 2005

Ég er greinilega ekki ómissandi

Mikið eru dagarnir núna hverjum öðrum líkir það er nánast ekkert sem maður gerir þessa dagana sem einhvert tilbreyting er í. Þetta er reyndar ekki alveg rétt við SJER félagar hittumst áðan en framundan er þorrablót sem við munum væntanlega spila á. Það ætti að ganga vandræðalaust fyrir sig enda við með músík sem hæfir vel slíkum tilefnum. Það eru ennþá 10 dagar í þetta. Ég heyrði í Halafélögum áðan og æfingar ganga vel en núna fer ýmislegt að gerast hjá mér sem gjaldkerfi hópsins. Það verður í nógu að snúast væntanlega á næstunni að halda utanum allt heila "klabbið". Það er svolítið skrýtið að vera ekki sjálfur á kafi en þetta segir mér bara það að ég er ekkert ómissandi.
Sigga er á kafi í spilamennsku núna og ég sit hér einn í rólegheitum - nenni ekki einusinni að horfa á leikinn hann er svo hundleiðinlegur.

23 janúar 2005

Skárri heilsa

Heilsan er að skána ég ætla alla vega að reyna fara í vinnu í fyrramálið en þar á ég ólokið verki sem verður að klárast helst strax í gær eða þannig. Ekki nánar út í þá sálma. Ég hef legið eins og klessa í bælinu síðan á miðvikudagskvöld og er búinn að fá nóg.
Ég er ekki beint í miklu skriftarstuði núna þó mér liggi ýmislegt á hjarta en látum það bíða betri tíma.

20 janúar 2005

Lagstur í flensu

Haldið ekki að ég hafi náð mér í flensu. Mér leið andskotalega í gær en við SJER félagar héldum æfingu en þar vantaði einn sökum flensu. Þrátt fyrir það tókst bara bærilega. Líðanin í gærkvöldi var orðin alveg ferleg og ég svaf ekkert í nótt. Eina sem dugar er að taka verkjalyf því annars er ég viðþolslaus af verkjum í fótunum. Úthaldið til skrifta er varla meira og læt ég þessu lokið.

18 janúar 2005

Letidagur

Ég hef eiginlega ekki nennt einu eða neinu eftir að ég kom úr vinnu í dag. Upphaflega var ætlunin að fara á bogfimiæfingu en þegar til kom náði letin yfirhöndinni. Skamm, skamm.
Þetta lýsir eiginlega deginum svona algjör letidagur. Nenni ekki að skrifa meir, enda ekki frá meiru að segja.

16 janúar 2005

Ruslpóstur og ýmislegt annað skemmtilegt

Ég get nú varla orða bundist yfir því hversu fólk getur orðið auðtrúa en mér barst póstur frá ónefndri manneskju með viðhengi sem var ótrúlega vitlaust og reyndar var búið að vara við í fréttum. Samt heldur svona vitleysa áfram, þetta er eins og með keðjubréfin og hægt að líta á þetta, sem afbrigði af þeim. Þetta styður það sem ég hef stundum sagt "fólk er fí....." þið vitið restina.
Eitthvað hefur nú samt uppbyggilegra gerst heldur en að vera að fjasa yfir ruslpósti sem ég er nú blessunarlega laus við hér heima þökk sé frábæru póstforriti sem á eftir að batna enn meira á næstunni. Ruslasían virkar ótrúlega vel, sem er eitthvað annað en dótið sem ég er með í vinnunni, þar byrjar maður á því að henda tugum skeyta alla morgna.
Jæja, ég stóð við góðu fyrirheitin sem ég gaf mér og skeiðaði á bogfimiæfingu í dag. Árangurinn, ja hann var svona la la. Einhvern veginn var ég ekki mjög vel upplagður en maður gerir fleira en gott þykir. Þetta gerir manni ekkert annað en gott og félagsskapurinn er góður.

15 janúar 2005

Skoðanaskipti og fleira

Mér barst comment frá góðum vini og samherja hér í gær vegna skrifa um opnun skrifstofu Cp félagsins. Ég varð svolítið hugsi en svaraði síðan viðkomandi. Athugasemd (comment) hanns var svohljóðandi "Eitt fötlunarfélagið í viðbót...." og ég svaraði með því að það hefði verið nauðsynlegt þar sem þessi gömlu stóru sem við hefðum kannski átt samleið með væru ekki að sinna nauðsynlegu fræðsluhlutverki. Því miður hafa þau ekki gert það og þess vegna eru svona mörg félög um hinar og þessar fatlanir. Það er kannski kominn tími til að menn fari að ræða það opinskátt hvers vegna ástandið í þessum málum er svona.

13 janúar 2005

Góður dagur

Við SJER félagar hittumst á æfingu í gær og þrátt fyrir að rúmur mánuður væri síðan við spilum síðast gekk bara furðu vel. Við erum ákveðnir í að hittast reglulega að lágmarki einu sinni í viku og láta ekki svona langt tímabil líða á milli æfinga. Við erum að þessu til að skemmta sjálfum okkur og hafa gaman af. Ef eitthvað meira kemur út úr þessu er það bara bónus.
Nú í kvöld tók ég þátt í opnunarhátið Cp félagsins en við vorum að opna nýja skrifstofu sem staðsett er í húsnæði Sjónarhóls við Háaleitisbraut það varð hin ánægjulegasta samkoma.

11 janúar 2005

Engu gleymt

Jæja, það voru svo sem ekki gerð nein áramótaheit núna frekar en venjulega. Þó skal leitast við af fremsta megni að lifa sæmilega heilbrigðu líferni. Til marks um það var skeiðað á æfingu áðan. Hvurslags æfing var það jú, boginn var tekin fram efir nærri árs hlé. Þó ég segi sjálfur frá þá gekk bara furðu vel. Það tók nú töluverðan tíma að tína allt dótið saman og átta sig á hvar allt var í töskunni.
Tók ég þessu bara rólega vildi ekki ofgera mér svona fyrsta kastið. Árangurinn varð þokkalegur þegar ég var búinn að ná upp í mér hita og striðleikin var farinn. Eins og ég sagði við einhvern hérna fyrir mörgum árum sem var í sömu sporum og ég „þetta er bara eins og að læra að hjóla þú gleymir því aldrei“.Ég man ekki hvort ég hafði skýrt frá því en ég er byrjaður í sjúkraþjálfun tvisvar í viku nú á að liðka kallinn upp. Svona lagað hefði ég átt að vera búinn að gera fyrir löngu en það þýðir ekki að hugsa um það sem liðið er. Nú er bara að sjá hvort staðið verður við það að æfa allavega einu sinni í viku eða þannig.

09 janúar 2005

Búið að ganga frá öllu

Það átti að nota helgina í það að ganga frá jóladóti sem reyndar tókst þrátt fyrir að ég hefði þurft að vinna í gær. Við hjónakornin náðum því að pakka niður öllu jóladóti í gær og er það nú allt komið í geymslu. Þetta tók nú ekki langan tíma þar sem að tiltölulega lítið var tekið upp af jólaskrauti þessi jólin.
Annars er þetta frekar tíðindalítið núna algjör gúrkutíð þið vitið fastir liðir eins og venjulega.
  1. Vinna
  2. Éta
  3. Sofa
Nóg af bulli í bili

06 janúar 2005

Jólin búinn - sprenginar og læti

Eftir vinnu í dag skrapp ég í söluhús okkar Esjumanna við Engjateig 11 og aðstoðaði félaga mína þar við flugeldasölu. Stuttu efir að ég kom laust uppúr kl. 17:00 gerði smá hvell í sölunni og allt fylltist út úr dyrum og var þetta þannig þá tæpu tvo tíma sem ég stoppaði. Snaraðist síðan heim og hafði fataskipti því ég átti að mæta á fundi í Esjunni þá um kvöldið. Það var góður og málefnalegur fundur, nú sit ég hér og dunda mig við að hreinrita fundargerð milli þess sem ég gríp í „bloggið“. Sigga skrapp uppí Mosfellsbæ á þrettándabrennuna þar en það hefur hún gert í mörg ár. Á eftir hittist svo slektin [hennar] heima hjá Hönnu frænku, ég gat ekki verið með að þessu sinni var upptekinn annarsstaðar eins og fram hefur komið. Nú þegar þetta er ritað undir miðnætti aukast sprengingar til muna sumir eru greinilega að klára byrgðirnar.
Þetta er búinn að vera fínn dagur að mörgu leiti - held ég fari að hætta þessu bulli að sinni.

04 janúar 2005

Grámyglulegur hversdagsleiki

Jæja, þá er grámylgulegur hverdagsleikinn tekin aftur eins og sést hér á útliti síðunnar allt svona jóla, jóla tekið út. Það þýðir þó ekki að fyrir mér séu jólinn búinn nei alls ekki. Það sem af er þessu ári hef ég og mínir tekið því rólega. Sigga hefur reyndar verið að kvarta sáran yfir miklum verk í öðrum fæti og hefur þurft að taka verkjalyf þess vegna. Hvað veldur þessu vitum við ekkert um ennþá.

Halastarfið er farið í gang nú er byrjað að leiklesa næsta verk sem er eins og margir vita Kirsuberjagarðurinn eftir Tjekkov eins og margir vita eflaust, ég ætla ekki að vera með að þessu sinni, tek mér frí.

01 janúar 2005

Nýjársnótt

Hér erum við kominn á fullt í eldamennsku á Kalkún og allt á fullum snúningi. Þar sem prentarinn hjá mér er bleklaus eins og svo oft áður þegar þörf er á að nota hann greip ég til þess ráðs að taka iBókina og fara með hana fram í eldhús svo hægt væri að lesa uppskriftina beint af skjánum Ég er alltaf svo sniðugur eða þannig
Kalkúnninn varð bara sæmilegur en nú er orðið svo mikið rok hérna (20:16) að það er ekki stætt út á svölum. Við urðum að bjarga yfirbreiðslunni af grillinu áður en hún fiki út í veður og vind en 5-10 kg. poki sem lá ofan á grillinu er farinn til andskotans hann var svo sem bara fullur af mold. Ætli Stebba blessunin finni hann ekki út á svölum hjá sér? Vonandi stendur þetta ekki lengi. Rokið stóð ekki lengi og úr rættist. Dolli mágur var hérna hjá okkur í mat ásamt mömmu. Um miðnættið skruppum við Dolli út á Klambratún og skoðuðum flugeldasýningu landans.
Ég keyrði mömmu heim skömmu eftir miðnættið en hún hefur verið að ansi lasinn undanfarna daga, í bakaleiðinni sótti ég Guggu og sitjum við nú hér fjögur og spilum UNO af miklum móð. Spilamennskunni lauk kl. 07:00 þann fyrsta janúar 2005.