30 júlí 2006

Allur lurkum lamin


Það er búið að vera mikið að gera þessa helgi. Haldinn afmælisveisla fyrir mömmu, sem reyndar á afmæli seinnihluta ágúst mánaðar. En það helgast einfaldlega af því eins og sagði í fyrri færslu að við erum öll á landinu núna systkynin.
Í dag fórum við í göngutúr að skoða Lambafellsklofa. Hvað skyldi það nú vera jú það er lítið fell nálægt Keili sem heitir Lambafell og er klofið þannig að það er hægt að ganga í gegnum það. Fyrir mig var þetta nokkuð strembin ganga en hafðist. Alla vega er ég nú allur lurkum laminn.

26 júlí 2006

Myndavélin á lofti

Ég er búinn að vera að mynda óvenju mikið undanfarið. Því hef ég sett kræju hér á síðuna neðst þar eru myndir, sem eru vistaðar á www.flickr.com þangað hef ég verið að henda inn myndum sem ég hef verið að taka á svona græju undanfarið. Þetta safn á eflaust eftir að taka miklum breytingum, því ég hendi væntanlega meirhlutanum út aftur. Það er bara svo andsk.... gaman að fást við þetta og þá sérstaklega eftirvinnslu mynda. Það er eins og maður sé kominn aftur í myrkrakompuna, án myrkursins. Hugsa sér ekkert sull með vökva eða eiturefni allt á stafrænu formi. Ég er rétt að byrja að fikta við þessa vél þó ég sé búinn að taka vel á 900 myndir á hana.
Nú er ég farinn að telja niður dagana þangað til ég kemst í frí, en fyrst ætla ég að njóta samverustunda með systkinum mínum en við verðum öll hér á suðvestur horninu um næstu helgi. Það er orðið langt síðan við höfum hist öll.
Uppúr miðjum ágúst verður svo lagt væntanlega í ferð vestur á firði. Það eiga eflaust eftir að birtast einhverjar myndir þaðan þegar þar að kemur. Meira um það síðar.

20 júlí 2006

Góðviðri - já og nei

Það er ekki andskotalaust að þurfa að vera að vinna í þessi fáu skipti sem sólinn lætur sjá sig hérna á suðvestur landinu. Það er nú ekki eins og það sé neinum gríðarlegum hita fyrir að fara. 13° hér í Reykjavík.
Bölvaði mér ógurlega áðan, en ég ætlaði að taka myndavél með mér í morgun og mynda heimsins stærsta seglskip á eftir. Það verður víst að bíða, nenni ekki að keyra 30 km til þess að nálgast vélina.
Stundum held ég að fólk og fjölmiðlar sé orðið stór undarlegt sbr. þetta. Það er greinilegt að við höfum fjarlægst ansi mikið umhverfi okkar síðustu áratugina.
Þegar ég var búinn að vinna um kl. 5 í dag þá skaust ég niðrí Hátún 14 og skaut nokkrar umferðir og tókst bara nokkuð vel til. Var nú einn mest allan tíman en þó kom Guðmundur Þormóðs um 6 leitið. Þetta var ágætis endir á annars góðum degi held ég.

16 júlí 2006

Skutlutúr í góða veðrinu


Eftir að ég var búinn að vinna í dag dró ég Siggu og tengdamömmu með mér í smá túr. Fórum á skutlunum hérna með ströndinni. Farið var sem leið lá eftir göngustígunum sem liggja hér með ströndinni. Enduðum niður við ósa Korpu og snérum þar við. Þetta var hreint stór góður túr.

14 júlí 2006

Spilirí og fleira

Við SJER félagar komum saman í gær til að spila. Reyndar ekki allir einn vantaði. Það skiptir hins vegar ekki máli en mikið andsk.... vorum við orðnir ryðgaðir. Ég held að það sé orðið hátt í mánuður síðan við spiluðum síðast. Þrátt fyrir það þá var þetta góð æfing.
Það er einhver lumbra í mér þannig að ég hef verið heima í dag. Þetta er ekkert alvarlegt, en mér fannst rétt að vera ekkert að fara í morgun og geta svo ekki einbeitt mér að því sem ég þyrfti að gera.

12 júlí 2006

Af kjaftaskúmum

Einhverntíma var sagt að "illt umtal er betra en ekkert", nú á þetta greinilega við um mig. Alla vega fæ ég þær fréttir úr Krika að þar hafi það borið á góma s.l. sunnudag að ég hafi verið "blindfullur í heila viku" uppí Munaðarnesi nú á dögunum. Ja, nú sést best hverjir eru vinir manns og hverjir ekki.
Ég læt mér alla vega svona kjaftasögur í léttu rúmi liggja, sérstaklega þegar þær koma frá einstaklingum sem ekki greina á milli draums og veruleika. Þeir taka það til sín sem eiga.
Annars talandi um Krikan, þá er gaman að sjá að nýja húsið er komið þangað.

09 júlí 2006

Skroppið í bíltúr - öfugur Þingvallahringur

Skruppum í góðan bíltúr í gær (laugardag), sem byrjaði reyndar á því að ná í mömmu niðrá Hrafnistu, en hún er ný flutt þangað. Þaðan lá leiðin út úr bænum. Við Sigga höfðum ákveðið að fara með þá gömlu austur fyrir fjall og upphaflega var stefnan tekin á Hveragerði. Á leiðinni ákváðum við samt að fara í kaffi á Hafið bláa, en það er veitingastaður sem er við ósa Ölfusár við brúna að vestanverðu. Þar áttum við notalega stund við kaffihlaðborðið. Við ákváðum að fara síðan lengri leið heim byrjuðum á því að renna upp á Selfoss. Þaðan var svo farið sem leið lá framhjá Þrastarlundi og beygt inn á Þingvalla leiðina. Fórum svo í gegnum Þingvelli, stoppuðum aðeins á nýja tjaldstæðinu í Vatnskoti, skoðuðum þar aðstöðu sem þar er kominn. Þarna við vatnið fékk ég þær bestu fyrirstætur sem ég hef lengi haft til að mynda en það voru 10 litlir andarungar. Þeir voru svo gæfir að það var hreinasta skemmtun að mynda þá. Fórum síðan sem leið lá yfir Mosfellsheiði til Reykjavíkur. Skiluðum það mömmu af okkur og héldum heim. Sú gamla var ánægð með túrinn, og þar með var takmarkinu náð. Svona í lokin allir skoða þetta myndband.

07 júlí 2006

Skroppið í Krika


Þegar ég var búinn að vinna í dag þá skruppum við í Krika hjónakornin og áttum þar góða stund með góðu fólki. Annars hefur lítið mekilegt annað skeð þessa vikuna.

03 júlí 2006

Sumarhátíðin



Eins og greint var frá í síðustu færslu þá var haldið austur í Reykholt í Biskupstungum á sumarhátíð CP félagsins. Þetta er í fimmta sinn síðan þessi hátíð er haldinn og í þriðja skiptið sem við förum. Hátíðin tókst vel í alla staði og skemmtu fjölmargir þáttakendur sér hið besta.
Það sem krökkunum finnst mest gaman er að fara í ferð með "Kubbnum" hanns Óla eins og myndirnar hér að ofan sýna.
Hátíðin stendur yfir frá föstudegi til sunnudags hverju sinni og er haldið mikið ball á laugardagskvöldinu.

02 júlí 2006

Munaðarnes



Ég var víst ekkert búinn að skýra frá því að við yrðum viku í Munaðarnesi, en við fórum þann 23. júní þangað. Hver eru svo þessi við náttúrulega ég og Sigga ásamt Guggu vinkonu okkar en hún hafði fengið hús á leigu þarna.

1. dagur í Munaðarnesi.
Komum hingað um kl. 14 og renndum upp að þjónustumiðstöðinni og tilkynntum komu okkar. Athygli okkar var strax vakin á því að húsið (nr. 7), sem við ættum að vera í væri mjög svo ill aðgengilegt fötluðum, hófst þá upp nokkur rekistefna um hvað væri til ráða. Ekki væri hægt að hringja í þann sem útvegaði húsið vegna sumarleifa. Umsjónarmaður staðarins bað okkur aðeins um að doka og kom svo til baka og sagðist vera með lausn á þessu. Afgreiðslustúlka í þjónustumiðstöðinni hafði fengið næsta hús fyrir neðan og bauðst til að skipta við okkur. Þáðum við það með þökkum. Það kostaði nokkuð bras að koma öllu dótinu inn enda upp brekku, en hefðum við verið í upphaflegu húsi þá hefði það verið vonlaust. Ég sé mig reyna að koma Siggu þangað uppeftir í möl og alles.
Eftir að við höfðum komið okkur þokkalega fyrir þá skellum við okkur í heita pottinn og nutum þess hreint í botn. Kvöldinu var síðan eitt í rólegheitum.

2. dagur í Munaðarnesi
O.M.G! að vera með þessum tveim, það tekur stundum á taugarnar. Þær fjasa hér hvor uppí aðra þannig að ég fæ stundum alveg nóg. “þú ert ekki barnanana bestur” segir Sigga, sem ekki getur hætt að fjasa. “Ég er ekkert að fjasa” “ég má aldrei segja neitt”, sagði Sigga einu sinni enn.
Þessum degi var eitt í leti, skoppið niðrí Borgarnes til að ná í eitt og annað smálegt, þegar komið var heim þá var farið beint í pottinn og legið þar í suðu. Passað var vel uppá að hafa nógan bjór með. Mín þurfti samt að “fjasa” yfir því. Henni var þá bara gefin “Caribbean Twist” í staðin og undi hún glöð við sína flösku góða stund.
Ekki nenntum við á ballið sem átti að vera hér í kvöld, en við spiluðum Scrabble fram á nótt (eiginlega má sega að ég hafi spilað það) ég þurfti að hjálpa þeim svo mikið. Reyndar varð ég lægstur hefði átt að fá samanlögð stig þeirra líka. Eymingja ég.

3. dagur í Munaðarnesi
Þessi dagur var tekin heldur rólega. Við fórum í smá skreppitúr fyrst í Reykholt og svo þaðan í Húsafell. Kvöldinu var síðan eytt í sjónvarpsgláp og farið snemma að sofa eða þannig.

4. dagur í Munaðarnesi
Fjandinn hafi það nú var sofið næstum því í hálfan sólarhring. Dröttuðumst ekki á fætur fyrr en um hádegi. Veðrið var hundleiðinlegt kalt og gekk á með skúrum. Ekkert farið í pottinn, reyndar höfum við ekki getað það vegna veðurs síðan í fyrradag.
Kvöldinu var eytt í að spila Uno.

5. dagur í Munaðarnesi
Þennan dag var þokkalegt veður og nú skildi aldeilis farið í pottinn. Ok., ég sendur út til að athuga með pottinn en þá var hann orðin svo skitugur að það var ekki hægt. Hringum við þá í umsjónarmann og kom hann að vörmu spori. Tæmdi pottinn og hreinsaði og sagði að það tæki drjúga stund að renna í hann aftur. Sáum við fram á að komast kannski ekkert í pottin en ákváðum að sjá til. Ekki voru komnir nema nokkrir sentimetrar af vatni í pottinn þegar þær voru komnar ofaní. Heimtuðu drykk og létu svo vatnið smá hækka í. Eftir u.þ.b. 1 og hálfan tíma var orðið nokkuð góð vatnshæð í pottinum og bættist ég þá í hópinn.

6. dagur í Munaðarnesi
Þessi dagur fór í undirbúning fyrir heimferð og svoleiðis og ekkert farið í pottinn, sem náttúrulega var alveg hundfúlt en við því var ekkert að gera.

7. dagur í Munaðarnesi
Lögðum á stað nokkuð snemma heim, eftir að ég var búinn að skúra húsið hátt og lágt. Þið trúið því náttúrulega ekkert, en satt er það nú samt. Stefnan tekin á Mosó, og þaðan síðan beint austur í Reykholt á sumarhátíð CP félagsins, sem alltaf er haldinn fyrstu helgina í júlí.