29 maí 2007

Hvítasunnuhelgin

Við vorum í sumarbústaðnum um helgina og lágum þar í leti. Fórum reyndar ekki fyrr en á laugardag og vorum komin heim um miðjan dag á mánudag.

18 maí 2007

Sumarrútínan að hefjast

Í gær var legið í leti heima fram eftir degi en Magga systir kíkti ásamt mömmu í heimsókn til okkar og var orðið nokkuð síðan ég hafði séð þá gömlu. Ég hafði heyrt í henni í síma en ekki séð nokkuð lengi.
Nú er sumarrútínan að hefjast hjá mér en hefðbundu félagsstarfi að ljúka. Vonandi getur maður getur snúið sér að öðru í sumar. Nóg verður að gera næsta vetur.
Við vorum með aðalfund hjá okkur í Kiwanisklúbbnum Geysi sl. miðvikudagskvöld og fór það vel fram en það kom í minn hlut að stjórna þeim fundi. Um næstu helgi er svo aðalfundur Halaleikhópsins og þar þarf ég að vera líka. Þá er þetta félagsstúss væntanlega búið í bili.
Ég er búinn að vera með allsskonar hugmyndir um að hefja heilsuátak á sjálfum mér fara að hreifa mig meira eða þannig. Það ætlar samt ekki að ganga andskotalaust að framkvæma það því alltaf skal eitthvað koma úppá sem þarf að sinna og eyðileggur göngutúrana fyrir mér. Kannski er ég bara svona latur og nota það sem afsökun fyrir því að gera ekkert í málinu.

14 maí 2007

Skrapp austur

Ég skrapp austur á Egilsstaði um helgina og átti þar notalega stund með systur og mági. Þar ræddum við hin ýmsustu mál, en fyrst og fremst var þetta svona afslöppunarferð fyrir mig. Hafði með mér myndavél en ekki varð nú afraksturinn af því neitt sérlega góður ætla þó að reita inn nokkrum myndum á myndasíðuna mína næstu daga. Tvær eða þrjár eru nú þegar komnar.
Ekki get ég nú sagt að ég sé ánægður með kosningaúrslitin og verður fróðlegt að fylgjast með hvað gerist næstu daga. Ætli það gerist aftur það sama og gerðist 1995? þegar Davíð kippti Dóra inn í stað Jóns Baldvins. Ef ég á að segja eins og er þá finnst mér kosningakerfið hér orðið stórskrýtið svo ekki sé meira sagt. Það er ekki nokkur leið að fá nokkra glóru í þetta orðið.

07 maí 2007

Ekki dauður enn



Nú verður maður að fara að bretta upp ermarnar og skrifa eitthvað, svona andsk.... ládeiða gengur ekki lengur.
Það mætti halda að maður væri dauður eða þannig. Fréttir af andláti mínu eru allavega stórlega ýktar og ég og mínir lifum góðu lífi. Ég hef bara einfaldlega ekki gefið mér einn einasta tíma til að blogga undanfarinn mánuð.
Þetta er búinn að vera náðug helgi hjá okkur og er það töluverð breyting frá atinu sem var helgarnar þar á undan. Leiksýningum er lokið og lífið óðum að færast í eðlilegt horf. Við vorum með brot úr verkinu á sýningu "List án landamæra" þann 30. apríl sl. og lukkaðist það nokkuð vel. Við hjónakornin skruppum í bíltúr í gær sem svosem er ekki í frásögur færandi en mikið er nú allt óttalega litlaust ennþá sbr. myndina sem hér fylgir en hún var reyndar tekin fyrir hálfum mánuði.