30 september 2004

Vitlaust að gera framundan

Í gær lauk upptökum á stuttverkunum og næst á dagskrá er að ganga frá þeim þannig að við getum skilað þessu frá okkur til BÍL. Fresturinn til að skila var sem betur fer framlengdur.
Það verður að segjast eins og er að ekki er víst að mikið verði bloggað þar sem mikið verður að gera næstu daga.
Eins og lesendur hafa orðið varir við þá hafa færslur undanfarna daga nánast eingöngu verið um eitthvað vesen í kringum Halaleikhópinn. Svona er þetta bara hlutirnir gerast í törnum sólarhringurinn dugir varla til.
Framundan er helgin og ekki útlit fyrir að hún verði neitt rólegri. Á laugardag verða framkvæmd stjórnarskipti í Kiwanisklúbbnum Esju, ég verð ritari næsta starfsár. Hlakka til þess vegna þess að það er oft virkilega krefjandi starf. Eitthvað er verið að spá í að Halar komi samann á laugardag og fagni 12 ára afmæli leikhópsins vonandi skemmta þau sér vel en ég verð fjarri góðu gamni.

28 september 2004

Stressið og vesenið að verða búið

Nú ættu hlutirnir að fara að vera nokkurn veginn eðlilegir aftur. Vesenið í kringum stuttverkin er að vera búið. Við erum búin að taka upp tvö og eigum eftir að taka eitt upp sem við gerum væntanlega á morgun. Mikið verður gott að losna við allt stressið sem hefur fylgt þessu undanfarna daga.
Þegar þessari törn er lokið þá getur maður loksins snúið sér að því sem allt of lengi hefur setið á hakanum. Eitt af stóru markmiðunum í vetur er að eiga rólegan vetur og geta vel sinnt sér og sínum.

Áskorun

Ég sagði við Árna Sal í gær að ég væri svo þreyttur að ég væri að hugsa um að setja á bloggið bara ZZZZZZZZ sem ég og gerði. Maður verður að halda í prinsippið að blogga daglega og skoraði á hann að gera slíkt hið sama. Minn maður stóðst náttúrulega ekki áskorunina. "Prinsipp er prinsipp"
Það var haldið áfram að æfa stuttverkin í gær og verða þau væntanlega tekin upp í kvöld alla vega einhver þeirra.
Fyrsti fræðslufundur vetrarins hjá CP félaginu í kvöld, veit ekki hvort ég næ að mæta. Ætla að reyna ef ég verð laus.

27 september 2004

Þreyttur

Gisp ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ

26 september 2004

Letidagur - nauðsynlegt líka

Þetta hefur verið algjör letidagur en slíkir dagar eru nauðsynlegir öðru hvoru. Við hjónakornin fórum og heilsuðum uppá ömmu gömlu (ömmu Siggu) en hún varð 92 ára í dag. Sú gamla var bara furðu hress.
Í kvöld verður skeiðað á æfingu á stuttverkinu Streymi en nú fer óðum að líða að því að við förum að taka það upp.

25 september 2004

Notadrjúgur dagur

Þessi dagur hefur verið nokkuð notadrjúgur. Ég byrjaði á því að fara á framhaldsaðalfund ÍFR snöggan og góðan fund. Þann fund yfirgaf ég með stóran blómvönd og gullmerki í barmi kannski fyrir að hafa þolað súrt og sætt með félaginu frá stofnun þess fyrir 30 árum.
Síðan hef ég verið að dunda í vefsíðu ÍFR það sem eftir var dags en þar er að fara í gang nýtt getraunaátak og fékk ég góða menn í lið með mér að setja upp skráningarsíðu í því sambandi. Eins hef ég verið að setja upp síðu sem inniheldur fundargerðir, skýrslur og þess háttar til að auka upplýsingaflæðið í félaginu.

23 september 2004

Björgunarhring takk

Nú er maður að drukkna í allskonar verkefnum bæði í vinnu og því sem tengist hinu lífinu (félagsmálastarfseminni). Þetta eru þó allt verkefni sem eru ekki leiðinleg heldur frekar hitt að þau séu krefjandi.
Meira um þetta kannski á morgun því að ég hef hreinlega ekki tíma til að blogga akkurat núna.

22 september 2004

Ekki alveg eins mikið að gera

Þennan daginn hefur ekki verið alveg eins vitlaust að gera og í gær. Í vinnunni náði maður ekki að gera neitt af viti, endalausir fundir sem reyndar voru nauðsynlegir að þessu sinni.
Við tókum okkur frí frá stuttverkaæfingum í dag en væntanlega verður tekið til við þær á morgun.
Kvöldinu var svo eytt í vinnu við vef CP félagsins og er hann nú óðum að mótast.

Mikið að gera

Þetta var meiri dagurinn í gær. Ekki einu sinni tími til að blogga hvað þá meir. Etir vinnu tók við SJER æfing og strax að henni lokinni var farið í æfingu á stuttverkunum tveim sem ég er í. Kvöldinu lauk svo með löngum stjórnarfundi hjá CP félaginu.
Eftir þetta allt samann hafði maður ekki rænu á einu að opna tölvu þegar heim var komið hvað þá að tékka póst og þess háttar.

20 september 2004

Aftur kominn suður

Þá er maður kominn suður aftur. Túrinn norður var mjög góður. Held bara að við hjónakornin og ferðafélagar mínir hafi þrifist vel í Þingeyska loftinu. Þetta var viðburðarík helgi og afskaplega skemmtileg.
Æfing stuttverkanna stendur yfir á fullu og er nú æft nánast á hverju kvöldi. Hún er slæm þessi leiklistarbaktería.

16 september 2004

Aftur kominn norður

Jæja þá er maður kominn aftur norður í land. Það er ekki víst að mikið verði bloggað fyrr en eftir helgi. Hingað norður í Mývatnssveit er ég og kelli mín semsagt kominn og verðum hér fram á sunnudag. Hér stendur yfir heljarinnar mikið þing Kiwanisumdæmisins Ísland - Færeyjar.

15 september 2004

Jólamaturinn snemma á ferðinni

Þetta er búinn að vera rólegur dagur hjá mér í dag. Reyndar þurfti ég á einn stuttann fund eftir vinnu en það var allt í lagi. Doddi var með nýlagað kaffi eins og alltaf. Ég fékk óvænta hringingu áðan Laufey systir hringdi og sagði "ég er á leiðinni" ha ekki vissi ég að hún væri í bænum? Hún skaust hér inn snöggvast með hreindýrakjötsbita en Emil mágur var semsagt heppinn á veiðunum og nú var verið að deila út. Jólamaturinn er semsagt kominn í hús.

14 september 2004

Hreint engin vitleysa

Hefðbundinn dagur í dag, frekar rólegt í vinnunni. SJER æfing að vanda og tókst hún bara nokkuð vel, alla vega skemmtum við okkur vel. Siggi kom með gamalt Kinks lag sem er náttúrulega skilda allra bassaleikara að kunna, enda kunni ég það. Eftir að hljómsveitaræfingunni lauk var tekið til við að lesa stuttverkið Prinsípp sem við Ásdís Úlfars erum að glíma við og tókst það bara nokkuð vel hjá okkur. Þar sem Sigga var ekki heima þá nennti ég ekki heim strax eftir æfingu en leit í heimsókn niður í Íþróttahús og spjallaði við bogfimifélagana sem þar voru á æfingu. Mér finnst ég reyndar alltaf vera að svíkjast undan merkjum þegar ég kíki þar við vegna þess að ég hef ekki snert á boganum í mörg ár svo heitið geti.

13 september 2004

Vitleysa eða ekki?

Er það ekki eins og hver önnur vitleysa að ætla sér að leika í tveim stuttverkum, það kemur í ljós í kvöld en þá er meiningin að æfa hitt stuttverkið sem ég hef gefið kost á mér í.
Ég hef ekki fengið mikil viðbrögð við breytingunni á Halasíðunni, ein humm ha skoða betur seinna og svo önnur "miklu betri síða". Auðvitað væri hægt að gera enn betur en það kostar ansk... mikla peninga sem við eigum ekki. Ekki orð um þetta meir í bili.

11 september 2004

Svo bregðast krosstré sem önnur......

Þar kom að þvi ekkert bloggað í gær. Það á sína einföldu skýringu það gerðist ekkert merkilegt hjá mér og mínum í gær. Þar sem þessi dagur er ekki nema rúmlega hálfnaður og ég ekkert farinn að gera af viti þá læt ég staðar numið hér.
Sigga og tengdamamma skruppu í kirkjugarðinn ætluðu eitthvað að huga að leiði Maju og tengdapabba en þær eru ný farnar svo ég veit ekkert um það meir. Kannski bætist eitthvað meira við seinna í kvöld hver veit?
Hef verið á fullu í allt kvöld að útbúa nýja vefsíðu fyrir Halaleikhópinn. Þið Halar bíðið spennt.

09 september 2004

Allir dagar eins

Nú verður ekki annað sagt en að gamla góða rútínan sé kominn á fullt. Þið vitið "vinna, éta, sofa". Það gerist raunar ekkert annað. Stjórn Esjunnar kom samann áðan og ræddi væntanlegt Kiwanisþing sem haldið verður í næstu viku í Mývatnssveitinni. Maður er eins og landshornaflakkari þessa daganna á milli landshluta.
Niðurstaðan kom úr rannsókninni, smá sýking ekkert sem ekki er hægt að meðhöndla með lyfjum. Þannig að nú verð ég að rölta einn ganginn enn út í apótek eftir lyfjum. Ég held að þær séu farnar að þekkja mig stelpurnar í apótekinu ég er búinn að vera svo oft þar uppá síðkastið.

08 september 2004

Leiklistarbakterían herjar

Jæja, hvað getur maður sagt af viti í dag. Ég bara hreinlega veit það ekki - hefur nokkuð gerst af viti? Látum okkur sjá vinnudagurinn var samkvæmt venju ekkert óvænt þar. Jú ég rötli í vinnuna í morgun í rigningunni fór semsagt ekki á bílnum það var ósköp notalegt hlýtt og smá gola - bara betra.
Halastjórnin hélt smá fund undir kvöld þar sem rætt var um haustfund BÍL Reyndar leystist fundurinn síðan upp í almennt spjall eins og stundum vill gerast.
Nú verður sest viður við að lesa tvö stuttverk eða svo, æi hún er svo erfið þessi leiklistarbaktería, skyldi vera til bóluefni?

07 september 2004

Rólegt

Tók daginn snemma og var mættur í vinnu fyrir allar aldir. Um hádegið þurfti ég að fara upp á lansa og skila dóti sem ég fékk lánað þar í gær. Bíð eftir niðurstöðu rannsóknarinnar sem gerð var í gær, fæ eitthvað að vita á morgun hugsanlega. Annars finnst mér allt vera að komast í lag og mér líður mjög vel. SJER félagar eru vanir að hittast á þriðjudögum en vegna forfalla þá felldum við æfingu niður að þessu sinni. Verst hvað veðrið hefur verið leiðinlegt í dag.
Félagsfundurinn í Halanum í fyrradag gekk víst mjög vel, reyndar gat ég ekki verið með var ekki kominn í bæinn en mér skilst að þetta sé allt að fara af stað.
Í gærkvöldi var ég ásamt nokkrum úr stjórn CP félagsins að vinna að nýjum vef félagsins og gekk sú vinna svona og svona þar sem við kunnum ekki nógu vel á umsjónarkerfið, það á eftir að lagast vonandi. Þetta verður flottur vefur því get ég lofað.

06 september 2004

Ekkert gamann meir

Jæja þá er gamla rútínan að byrja aftur. Maður er semsagt kominn heim. Dagurinn byrjaði á því að fara uppá Landspítala nú átti að klára það sem frestað var vegna norðurferðarinnar þ.e. að losa mig við legginn. Það gekk vel en ég er langt því frá að vera nógu ánægður með ástandið á mér þ.e. pípulögninni (sjá eldri spítalasögur), þetta vonandi kemur. Annars hefur deginum verið eytt í rólegheitum og væntanlega verð ég farinn að vinna á fullu aftur á morgun.

05 september 2004

Lokadagurinn á ferðinni

Dagurinn var tekin snemma og byrjuðum við á því að skreppa inn í Lón eins og hægt var að fara með góðu móti á venjulegum fólksbíl. Veðrið var alveg frábært. Þar skoðuðum við okkur um dágóða stund en héldum síðan í átt til Hafnar í Hornafirði og tókum þar bensín. Síðan var haldið sem leið liggur í átt til Reykjavíkur með stuttum stoppum. Fyrst var stoppað á Skeiðarársandi og skoðaðar leifarnar af brúnni yfir Gígju. Haldið var síðan sem leið lá að Kirkjubæjarklaustri og fengum við okkur þar að borða. Þar hitti ég góðan félaga minn úr Esjunni og urðu náttúrulega fagnaðarfundir. Eftir að við höfðum snætt var haldið áfram og stoppað næst í Reynishverfi til að skoða brimið í fjörunni þar. Eftir að hafa áð þar góða stund var haldið áfram en við höfðum ákveðið að fara Þingvallahringin heim og koma við í sumarbústað "slektarinnar" og skoða framkvæmdir en þar er verið að taka allt í gegn. Eftir stutt stopp þar var haldið heim á leið og urðum við því fegnust eftir erfiðan dag.

Áttundi dagur ferðarinnar

Lagt var af stað um 11:00 frá Egilsstöðum og ferðinni heitið að Kárahnjúkavirkjun. Fyrst var samt stoppað í Hallormsstaðaskógi en þar hafði okkur verið sagt frá óvenjulegum berjum nefnilega Hindberjum. Laufey sagði okkur lauslega hvar þau væri að finna og eftir smá leit römbuðum við á staðinn. Urðum við þrjú þ.e. ég Ninna og Dolli eins og rollur á beit. Fyllt var á augnabliki 4 lítra fata af hindberjum, hrútaberjum og ribsberjum. Þetta varð semsagt allt önnur berjaferð en upphaflega stóð til. Það er haft til marks hverju gott sumar hefur verið að hindberin náðu þroska sem er mjög fátítt. Eftir tínsluna var haldið áfram inn Fljótsdal og lagt í brekkurnar upp á heiði. Fórum síðan eins og leið lá inn að Kárahnjúkum. Þar blasti við andsk.... eyðileggingin og hafði maður ekki getað gert sér í hugarlund hversu stórt þetta allt er í sniðum nema hafa komið í staðinn. Jökla rann samt sakleysisleg niður gljúfrið eitthvað annað en fyrr í sumar. Við vorum mjög heppinn með veður það var bjart þó ekki væri sól. Vel sást í Snæfell og við sáum Herðubreið líka mjög vel eftir allt saman.
Eftir að hafa skoðað framkvæmdir í Kárahnjúkum var lagt af stað aftur til Egilsstaða en við vildum kasta kveðju á Laufey og fjölsk. Emil mágur var reyndar farinn á hreindýraveiðar, nú átti að ná kúnni sem hann misti af um daginn. Eftir að hafa kvatt á Egilsstöðum var haldið af stað og fórum við yfir Öxi og var það þess virði að fara þá leið ekki bara hvað hún er styttri heldur hversu falleg hún er. Ferðinni var heitið á Djúpavog og þaðan átti að fara inní Lón en við gistum á Stafafelli.

03 september 2004

Sjöundi dagur ferðarinnar

Dagurinn var tekinn snemma allir rifnir upp á þið vitið eld snemma. Húsið þrifið hátt og lágt þetta var svo fljótgert að við lögðum af stað um 10:45. Stefnan var tekin í austur en því miður var grenjandi rigning þegar komið var í Ljósavatnsskarðið. Mér var hætt að lítast á blikuna. Við héldum förinni áfram og komið að Mývatni í grenjandi rigningu. Ég var heldur skúffaður yfir þessu öllu. Áfram var svo haldið og stefnan tekin á Möðrudal. Þegar þangað var komið byrjaði aðeins að birta til. Samt birti ekki nóg til að við sæjum Herðubreið og fannst mér það helst til súrt. Þegar ég var á Möðrudal síðast fyrir 10 árum þá var þar svo gott veður að ég gat verið í stuttbuxum sem ég held að ég hafi ekki farið í síðan eða þannig sko.
Við fengum okkur kaffi og samloku í Fjallakaffi. Síðan var haldið til baka upp á aðalveginn sem reyndar var verið að vinna í.

Þar sem við höfðum nægan tíma við áttum ekki að mæta hjá Laufeyju (systur á Egilsstöðum) fyrr en um kvöldmatarleitið þá ákváðum við að fara til Vopnafjarðar. Þar vorum við í alveg dásamlegu veðri. Leiðin lá síðan yfir Hellisheiði (eystri) og var það alveg hreint stórkostlegt að fara þá leið. Niður á Egilsstaði náðum við svo um sexleitið og var tekið á móti okkur af höfðingskap eins og við var að búast. Fengum sérrétt hússins að borða (uppskriftin ekki gefin upp).

02 september 2004

Sjötti dagur ferðarinnar

Morgunin var tekin rólega en um 1:30 var lagt af stað og farið sem leið liggur út á Húsavík, og var plássið skoðað lítillega. Þaðan var svo haldið til baka og farið fyrst í Ásbyrgi þar var gengið niður að tjörninni sem þar er. Í Ásbyrgi hafði ég ekki komið í 40 ár. Þar var dvalið góða stund þrátt fyrir rignungu en þar var algjört logn. Við gengum niður að tjörninni en það var ekki það auðveld ganga. Þaðan var svo haldið í Hljóðakletta og skoðað þar. Það verður að segjast eins og er að haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta. Haldið var svo til baka til Húsavíkur þar sem við fengum okkur kaffi í Gamla Bauknum. Leiðin lá síðan aftur til Akureyrar en það kom í hlut okkar Dolla að elda mat og varð okkur ekki skotaskuld úr því.

Fimmti dagur ferðarinnar

Sigga og Ninna skruppu niður í bæ að versla ýmislegt smálegt, en við Dolli urðum eftir heima. Þegar þær komu úr verslunarferðinni var lagt af stað til Dalvíkur en þar átti að skoða byggða safnið ásamt einhverju fleiru. Byggðasafnið á Dalvík var skoðaðí krók og kima Jóhanns stofa, Kristjáns stofa. Stofur þessar eru kendar við merka Svarfdælinga þá Jóhann Kr. Pétursson (Jóhann risa) og Kristján Eldjárn forseta. Úr byggðasafninu lá leiðinn á Kaffihúsið Sogn á Dalvík en þar fengum við heita bláberjaköku.
Haldið var síðan heim á leið það er á Akureyri og komið þangað laust fyrir kl. 18:30.

Fjórði dagur ferðarinnar

Dagurinn var tekin snemma en við höfðum ákveðið að fara út á Grenivík og inni í Vaglaskóg. Fyrst var stoppað í Laugarási ekki var farið inn í gamla bæinn en hann skoðaður vandlega að utan. Það var gamann að sjá uppsett bú með leggjum og fl. þar fyrir utan. Ég varð fyrir vonbrigðum í Vaglaskógi, einhvernveginn fannst mér eins og þar væri allt í niðurníðslu. Veðrið var hlítt og bjart annað en kuldinn daginn áður. Seinnipartinn byrjaði að þykkna upp en veðrið hélst sæmilega hlítt.
Tengdó var skutlað inn á FSA en hún er með eitthvað ofnæmi sem reyndist vera sólarofnæmi sem hrjáir börn og gamalmenni. Renndi inn í bæinn aftur og á Kaffi Akureyri þar sem ég ætlaði að komast á netið til að geta skilað frá mér þessu blaðri ásamt fleiru. Það gekk einhverra hluta vegna ekki og gaman væri að grennslast fyrir um það.

Þriðji dagur ferðarinnar

Veðrið þokkalegt gengur á með sólskini öðru hvoru eða var það rigning. Í dag er meiningin að skoða sig um fram í firði en fyrst varð að horfa á Formúluna.
Við tengdamamma fengum okkur góðan göngutúr hér yfir Eyjafjarðará. Norðanfýlan var heldur nöpur þannig að göngutúrinn var heldur styttri en til stóð. Restin af deginum var tekin í afslappelsi.

Annar dagur ferðarinnar

Vöknuðum snemma – ég hafði sofið frekar illa. Það virðist vera orðið regla frekar en hitt svona þegar maður sofnar á öðrum stað en heima hjá sér. Eftir morgunmat var farið hér út á verönd en við erum neð útsýni yfir flugvöllinn. Þar var lítil tvíþekja að fara á loft. Sýndi hún ýmsar kúnstir.
Einfaldur innkaupaleiðangur varð að hálfgerðri martröð það sprakk á bílnum hjá Fanney. Kapphlaup á dekkjaverkstæðið kostaði það að Dolli var tekinn fyrir ofhraðan akstur á Drottningarbrautinni. Hvernig í andsk.... dettur þeim í hug að hafa 50 km hámarkshraða þarna. Um kvöldið var farið í bæinn og kíkt á menningarlífið. Ég reyndi að komast inn á kaffi Karólínu en þar var allt fullt. Við fórum þá bara á neðri hæðina og fengum okkur kaffi og öl. Ekki fannst mér nú vera mikið fjör í gilinu allt með hægasta móti. Komum við í Bryju og keyptum heimsins “besta ís” á Akureyri eða þannig hann var svosem la la...

Fyrsti dagur ferðarinnar

Uppúr kl. 17:00 var loksins lagt af stað frá Dolla og stefnan tekin á Akureyri. Með í för voru Hanna og Fanney en þær ætla að vera með okkur yfir helgina. Við Dolli fengum bílinn hennar tengdó alveg fyrir okkur þær kellurnar ákváðu að vera saman í bíl. Nokkrum sinnum þurfti að stoppa til að reykja (ojbara segir þessi sem er ný hættur). Fyrsta stopp var í Baulu og var það mjög stutt. Síðan var haldið sem leið liggur yfir Holtavörðuheiði og stoppað næst við afleggjarann að Hvammstanga. Þar var næsta reikningapása. Hún varð öllu lengri en sú fyrri. Loksins var svo haldið áfram en ákveðið var að stoppa á Blönduósi til að borða. Þar var stoppað drjúga stund, en loks var hægt að halda áfram. Næsta pása var í Giljareitunum en þar þurfti að lofta út úr bílnum og tækifærið notað til að reykja. Leiðin var síðan greið til “Akureyris”. Okkur gekk ekki vel að finna bústaðinn sem við áttum að vera í enda komið svarta myrkur. Dolli gekk á allar hurðir sem hann fann þ.e.a.s. þar sem ekki var ljós innifyrir og prufaði lykilinn sem hann var með (smá ýkjur). Loksins fundum við húsið og er þetta allra smekklegasta hús.