30 desember 2004

Hvers er að vænta?

Þessu ári að ljúka og nýtt ár framundan, einhvern veginn leggst það ekki vel í mig. Ekki spyrja af hverju? Ég hef ekki hugmynd um það, þetta er bara svona tilfinning sem ég get ekki útskýrt. Síðasta degi ársins verður væntanlega eytt að hluta við að selja flugelda en við Esjufélagar höfum gert það í mörg ár. Að venju verða einhverjir gestir í mat hjá okkur - mamma, kannski tengdamamma og hennar "hyski" þetta orð er ekkert neikvætt þýðir einfaldlega þeir sem henni fylgja. Það getur orðið hin huggulegasta samkoma sem ætti að endast eitthvað fram undir miðnætti.
Hvað verður gert eftir það er óráðið ennþá, en ég á væntanlega von á fleiri gestum svo er bara að sjá hvað ég og mínir endumst.
Gleðilegt ár og þakka öllum samstarfið og samvinnuna.

29 desember 2004

Af jólum og heilsufari

Þessi jól hafa að mörgu leiti verið ánægjuleg. Eitt hefur þó verið að spilla fyrir mér ánægjunni, en það er ansk..... verkur í öðrum fæti. Á annan dag jóla var þetta orðið svo þrálátt að mér varð ekki svefnsamt. Ég treysti mér ekki til vinnu eftir jólin en lifði á verkjatöflum sem gerðu sitt gagn. Mér tókst að fá tíma hjá lækni þann 28. og niðurstaða hanns var. "Þetta er eitthvað útfrá bakinu" - jújú það gat svo sem passað því ég var með hræðilegan bakverk um daginn, sem ég held að ég hafi fjallað um hér. Nú er ég semsagt á leið í sjúkraþjálfun eftir áramót og er víst löngu kominn tími til. Það hef ég trassað í mörg ár - nú er bara að sjá hvort það dugir á löppina á mér - nú er hún bara dofin en enginn verkur.
Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef kíkt í gestabókina hér á síðunni, hvað haldið þið er ekki bara ný kveðja þar inni, gaman af því fólk mætti vera miklu duglegra að nýta sér þær fyrir lengri skilaboð, og bara svona til að láta vita að það er fylgst með.

Annars hef ég og mínir það bara þokkalegt

p.s. Laufey skilaðu til Emils að hreindýrasteikin hafi orðið æðisleg

24 desember 2004

Jólakveðja

Gleðileg jól og farsælt komandi ár til ykkar allra sem hafið nennt að lesa það sem ég hef verið að bulla hér í gegnum tíðina.

22 desember 2004

Þungu fargi aflétt - eða þannig

Fjandans martröðin sem búinn er að vera í vinnunni undanfarna viku er loks lokið þetta er búin að vera erfið fæðing. Ekki orð um það meir enda bannað að fjalla um vinnuna hérna. Maður getur farið að einbeita sér að því að hugsa um annað eins og að reyna að komast í jólaskapið. Það er smá saman að koma samanber útlitsbreytingin hér á síðunni, þetta er eitthvað fjörlegra en grámuskan sem var
Mikið verður gott að fá "nöldrið" sitt heim á morgun, sú held ég að verði feginn að þurfa ekki að fara aftur. Hún hefur verið hund óánægð með veru sína á Reykjalundi að þessu sinni. Ég hvet hana til að skrifa um það. Jæja, það er best að fara að snúa sér að því að horfa á fréttirnar.
Enginn hefur enn gefið sig fram varðandi það hver skrifaði commentið í gær
"Í guðs friði"

21 desember 2004

Hver skrifaði?

Það er ýmislegt búið að gerast í dag, en flest er þó ekki í frásögu færandi þar sem það tengist vinnunni. Já - ég sagðist ekki ætla að fjalla um þau mál hér. Hætti tiltölulega snemma að vinna í dag og skrapp til Dolla eftir vinnu. Þurfti að aðstoða hann með tölvuna, semsagt nördast svolítið.
Einver sem ég gæti kannast við commentaði á það sem ég skrifaði í gær, gaman væri að vita hver væri að skrifa því mér finnst nokkrar koma til greina.

20 desember 2004

Notadrúgur sunnudagur

Skrapp með "tengdó" í innkaupaleiðangur í gær, sem var bara hið besta mál náði að eyða því sem ég ætlaði mér eða þannig - þetta voru bara matarinnkaup.
Við dunduðum okkur við það að skreyta smávegis hjá okkur í gær þ.e. Sigga notaði tækifærið meðan hún var heima en við úti að versla. Skreytingarnar voru svo kláraðar þegar við komum heim (ég og tengdó). Ég var búinn að lofa Siggu að ég skyldi keyra hana uppá Reykjalund um kvöldið en dró hana með mér fyrst í búð. Nú skyldi dressa karlinn upp sem var gert. Enduðum kvöldið á því að fara út að borða villibráð ég get hiklaust mælt með selnum.

18 desember 2004

Jólalegt eða hvað

Mikið var eitthvað jólalegt og yndislegt að líta út í morgun. Allt hvítt og nánast logn. Nú fékk ég jólafílinginn - en æjii ég var á leið í vinnuna, já á laugardegi það er mikið að gera á stórum bæ. Ekki orð um það meir.
Þegar veðrið er svona fallegt eins og það var í morgun, þá á ég það til að gleyma því alveg hvað það getur orðið kalt. Hvernig stendur á því? Jú þar sem ég geymi bílinn alltaf inni þá man ég hreinlega aldrei eftir því að það þarf að klæða sig eftir veðri. Aldrei klikkaði ég á þessu þegar maður bjó uppi á fjöllum eða þannig ég meina í efra Breiðholti. Talandi um það þá er orðið ansi langt síðan við höfum kíkt á gamlar heimaslóðir það liggur við að maður rati þangað ekki lengur. Jæja nóg er komið af bulli held ég í dag - segi bara eins og sumir sögðu hér í den "í guðs friði".

17 desember 2004

Róleg vika heimavið

Þetta er búinn að vera annasöm vika í vinnu, en heimavið hefur þetta verið ósköp letilegt og þægilegt. "Kella" mín á afmæli í dag og verð ég að reyna skjótast út á eftir og finna eitthvað handa henni áður en hún kemur heim í dag. Hún sleppur vel fyrir horn núna engin veisla eða neitt þar sem við verðum ekki heima í kvöld. Það verða aðrir sem sjá um veisluhöldin. Meira um það síðar kannski. Til hamingju með afmælið Sigga mín.

Ég sagði víst að þetta hefði verið letileg vika heimavið þá hefur nú samt verið ýmislegt gert, ég fékk Jósa nágrana minn t.d. til að hjálpa mér með ljósaseríu á svalirnar og vorum við snöggir að því. Sigga þarf allavega ekki að kvíða því að allt sé í drasli hjá kallinum.

13 desember 2004

Ónýtur diskur eða hvað

Ég var nýbúinn að planta mér niður í sófan til að horfa á "Heim farfuglanna" nýjan DVD disk sem ég var að kaupa, eftir að vera búinn að hamast við að ganga frá þvotti og svoleiðis. Ég byrja að horfa og nýt þess í botn - en þá, byrjar ekki diskfjandinn að hökta. Ég tek hann úr og er hann þá grútskítugur með einhverjum andsk... klessum á og ég veit ekki hvað. Minn maður varð náttúrulega hundfúll og ætlaði sko aldeilis að henda draslinu í hausinn á þeim þarna í búðinni.
Bíddu anda rólega - skildi vera hægt að hreinsa þetta - ég á netið og leitaði en fann ekkert gagnlegt og þó, smá alcohol og þurrka vel með hreinum klút. Ég átti að eiga einhversstaðar Propanol, en fann það ekki þá datt mér í hug það snjallræði að nota, já hvað haldið þið? Pampers klúta eins og notað er á botnin á ungabörnum og skola síðan vel með vatni. Diskurinn er eins og nýr og ég nýt hanns í botn.

Illa nýtt helgi

Ósköp var nú gott að fá nöldrið sitt heim á föstudagskvöldið, ég var orðinn hundleiður á sjálfum mér heima. Hún sagði líka við mig "ég fer aldrei aftur á Reykjalund í desember það er allt of mikið stress"

Það er búið að vera fjári mikið að gera yfir þessa helgi, eða réttara sagt tíminn var illa nýttur. Við hjónakornin byrjuðum að versla ýmsa hluti fyrir jólinn í einum spretti á laugardag þar sem að ég þurfti að vera mættur á fundi kl. 14:00 þann sama dag. Eftir það var setið yfir jólamyndum niðrí Hala að horfa á tvær var eiginlega einum of mikið því laugardagurinn var nánast ónýtur.

Sunnudagurinn var óskop notalegur við hitt og þetta stúss heimavið og ekkert nema gott um hann að segja. Annars eru dagarnir hverjum öðrum líkir ekkert sérstakt sem sker sig úr. Sigga er farinn uppeftir aftur - þannig að næstu fjóra daga verð ég einn í kotinu.

08 desember 2004

Legið yfir græjum

Þetta er búinn að vera hreint ósköp þægilegur dagur. Engin sérstök uppákoma í vinnunni. SJER æfing í eftirmiðdaginn eins og venjulega. RGÞ kíkti hér við hjá mér og lágum við í spekúlasjónum yfir græjum eins og Mbox, Cubase og þess háttar hljóðdóti, sem væri hægt að tengja við tölvur. Annars var ekkert spennandi að gerast heyri í Siggu seint í kvöld en hún er uppi á Reykjalundi.

06 desember 2004

Fastir liðir eins og venjulega

Hefðbundinn vinnuvika byrjuð aftur - ekkert spennandi að gerast í vinnuni. Sigga fór í læknisskoðun í morgun, í tengslum við rannsóknina sem gerð var um daginn vegna skjaldkyrtilsins. Hún fór því ekki uppeftir aftur fyrr en í eftirmiðdaginn en Dolli kom hér og kláraði lampauppsetninguna og tók hana síðan með sér uppeftir. Nú verð ég semsagt grasekkill næstu fimm daga.

Annasöm helgi

Það var bara nokkuð mikið að gera þessa helgina. Tók þátt í flutningi á nokkrum jólalögum bæði laugardag og sunnudag í tengslum við basar sem haldinn var á vegum Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Það tókst bara nokkuð vel þó að hópurinn sem að þessu stóð hafi ekki æft mikið. Át yfir mig á jólahlaðborði á laugardagskvöldið. Eftir hlaðborðið fórum við sem þátt tókum í því og hittumst niðrí Hala þar sem við eyddum því sem eftir var kvölds í góðu spjalli.

Á sunnudeginum kom Dolli mágur í heimsókn og fengum við hann til að setja upp fyrir okkur ljós í eldhúsinu sem lengi var búið að standa til.

02 desember 2004

Tóm steypa og kuldi

Ég fór víst með tóma steypu í gær þegar ég sagði að flytja ætti jólalöginn þann 3. des. auðvitað er þetta næstkomandi laugardag þann 4. Æfingin á jólalögunum gekk bara nokkuð vel, ég þurfti reyndar að yfirgefa svæðið áður en æfingunni lauk þar sem ég átti að mæta á annan fund.
Ég flýtti mér heim skipti um föt og dreif mig svo á fund í Esjunni og var það með betri fundum sem ég hef verið á þar í lengri tíma þrátt fyrir að forseti héldi að hann hefði nánast ekkert til að leggja fyrir fundinn þá rættist úr og varð þetta mjög góður fundur. Þeir skilja sem voru á svæðinu eða þannig.
Ég er að spá í það þegar ég sit hér og pikka þetta inn og heyri haglið dynja á glugganum ætlar þetta að verða almennilegur vetur? Sá fyrsti í mörg ár ? Jörð hefur ekki orðið jafn oft hvít fyrir áramót og nú í vetur í þó nokkuð mörg ár. Í svona veðráttu nýtur maður þess að hafa bílinn inni og þurfa ekki að standa í því að skafa. Þegar ég bjó uppi á jökli, ofan snjólínu - ég meina í Breiðholtinu þá hugsaði maður til þess stundum með hryllingi að norpa í kuldanum og skafa af rúðum á bílnum oj bara.

01 desember 2004

Fjöðrin sem varð að hænum

Þetta er búinn ósköp venjulegur dagur, ekkert sérstakt í vinnunni, en þetta hefur þó verið gert utan við það.
  1. SJER æfing á venjulegum tíma.
  2. Aukafundur stjórnar Halaleikhópsins.
Ég hef komist að því, að ég, og þeir, sem ég hef mest samskipti við búa í mjög litlum heimi. Það má hreinlega ekkert út af bera svo ekki fari allt á annan endan. Þið kannist við söguna um hænuna sem missti fjöður, eftir smá tíma varð þetta að fimm dauðum hænum. Ég var á fundi áðan sem snérist nákvæmlega um þetta - ég hugsaði með mér andsk... þyrfti ég að flytja í milljónaborg - þar mætti maður kannski snúa sér við í friði. Já, við höldum að Reykjavík sé orðin stór en hún er ennþá pínulítið þorp. Ég er svosem ekki að ásaka neinn, en bið fólk um að horfa aðeins framfyrir nefið á sér áður en rangar ályktanir eru dregnar.
SJER æfingin var mjög góð - og á morgun er önnur æfing, en nú eru það jólalögin sem eru á dagskrá en við félagarnir ásamt fleirum ætlum að flytja nokkur jólalög þann 3. des. næstkomandi, í tengslum við basar Sjáflsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu.