21 janúar 2006

Sjaldséðir hvítir....

Fyrir u.þ.b. 6 mánuðum fjárfesti ég í forláta sjónvarpi, sem ég var að láta að setja upp fyrir mig. Beið hér eftir kunningja mínum sem ég keypti það af og ætlaði hann að aðstoða við uppsetningu sem hann og gerði. Meðan við biðum þá var hringt í okkur og var það þá Leifur (bróðir minn), sem var að tilkynna komu sína. Þau komu svo hér um tvö leitið en þetta er í fyrsta skipti sem þau koma hingað. Mamma var með þeim og fannst mér hún bara brött. Þau voru ekki búinn að vera hér lengi þegar kunningi minn (Dóri) kom, og hafði mamma ekki séð hann í ein 30 ár. Sú gamla sagði við hann "andsk..... ertu orðinn gamall Dóri" ekki það að hún væri orðin gömul. Nei öðru nær. Voru þau hérna hjá okkur í góðu yfirlæti fram eftir degi.

13 janúar 2006

Af siðaboðskap og heilsufari


Jæja, hvað á maður að bulla um núna, ég hef í sjálfu sér engu við að bæta umræðu síðastliðinar viku um þetta DV mál, sem tröllreið öllum fréttum. Jú, ég viðurkenni það að ég var einn af þessum 32.000 sem skrifaði undir áskorun þess efnis að nú væri komið nóg. Sé samt svolítið eftir því og get að mörgu leiti tekið undir með Merði Árnasyni. Alltaf gott að vera vitur eftirá. Það er búið að berja á DV fyrir að fylgja ekki siðareglum blaðamannafélagsins, þær eru ekki margar sjá hér.
Hins vegar er það af mér að frétta að ég hef verið frá vinnu í heila viku, fór að finna fyrir óþæginum í vinstri ökla í síðustu viku sem keyrði síðan alveg um þverbak sl. sunnudag. Fór til læknis á miðvikudag eftir að ég fór að skána aðeins, og úrskurður hans var "bólgin liðbönd" og bað hann mig um að taka "því rólega næstu 2 - 3 daga", sem ég og hef gert. Annars allt í "gúddí" eins og einn góður maður sem ég þekki segir oft.

08 janúar 2006

Allar gömlu færslurnar komnar

Þegar ég byrjaði að blogga hér þ.e. á blogspot.com þá gat ég þess að ég myndi reyna að færa allt bloggið mitt yfir. Þessum áfanga er nú náð og allar færslur frá upphafi aðgengilegar. Ein af ástæðum þess að ég flutti mig hingað var sú að ég gat ekki nálgast gamlar færslur vegna eilífra bilana í gagnagrunni þeirra sem hýstu bloggið og kerfið er meingallað.
Það var ansi gaman að mörgu leiti að sjá þessar gömlu færslur aftur, það rifjaðist svo ótal margt upp fyrir mér við lestur þeirra.
Það er annars skrýtið veðrið hér uppi á klakanum í morgun snjóaði en nú er kominn grenjandi rigning og rok. Þetta fer stundum óttalega í taugarnar á mér eða þannig.

07 janúar 2006

Ég bara varð

Stundum koma yfir mann svona augnablik að maður sér eitthvað og verður að taka af því mynd. Þetta kom fyrir mig áðan og var ég svo heppinn að vera með vélina við hendina.
Hér í eina tíð þá var ég alltaf með myndavél í bílnum hjá mér en það er því miður liðin tíð. Hér birtist ein af þessum myndum sem ég tók áðan.
Það er annars svo merkilegt með blessaða Esjuna hvað hún getur verið margbreytileg. Já þetta er hún ef einhverjir skyldu ekki hafa tekið eftir því. Ég hugsa að þær eigi eftir að verða nokkuð margar myndirnar af henni hérna, það er bara svo gaman að taka mynd af henni.
Annars allt gott að frétta og ekki frá neinu markverðu að segja.

06 janúar 2006

Eftir hátíðar - nýtt ár framundan

Núna yfir hátíðarnar hefur maður verið ósköp latur við skriftir. Þetta hefur samt verið góður tími, verst að þetta voru algjör atvinnurekandajól.
Nú hef ég losnað undan einni skyldunni en það er að halda úti vef Halaleikhópsins, nú er hann kominn á eigið lén og annar/önnur tekin við honum. Það er samt gaman að hugsa til þess hvernig hann varð til á sínum tíma en þetta var námskeiðsverkefni upphaflega eins og sumir þessara vefja sem ég hef skrifað. Þessi vefur vildi svolítið sitja á hakanum hjá mér sérstaklega þegar maður var sjálfur sem mest að starfa hjá leikhópnum, þá var bara alls engin tími til að sinna honum þ.e. vefnum nóg. Vonandi verður þetta til þess að hópurinn og vefur hanns eflist enn frekar og óska ég þeim velfarnaðar í starfinu en ég ætla ekki að vera með að þessu sinni.
Að lokum vil ég óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir þau liðnu.