27 apríl 2005

Vettvangsskoðun í Tröllateignum

Skrapp í sveitina í morgun ásamt Ragnari Gunnari til að athuga stöðu mála í Tröllateignum. Hann er að flytja þangað líka (fyrir þá sem ekki vissu). Eftir að hafa skoðað aðstæður og framgang mála held ég að það sé alveg ljóst að við flytjum ekki fyrr en í lok maí - eða júní byrjun. Malbikunarframkvæmdir standa yfir núna uppfrá og nú er einnig unnið af kappi við frágang innanhúss. Verið var að ganga frá uppsetningu eldhúsinnréttingar. Ekki er búið að ganga frá baðherbergi, en önnur herbergi voru næstum því tilbúinn. Búið er að ganga frá breytingu, sem við vildum gera á svefnherberginu og tókst þar vel til. Þetta er kannski svolítið svekkelsi fyrir þá allra bjartsýnustu, sem voru að vonast til að geta flutt uppúr miðjum maí.

25 apríl 2005

Sýningum lokið

Jæja, þá er sýningum lokið þetta leikárið. Við vorum að koma af síðustu sýningunni á Kirsuberjagarðinum. Það er óhætt að segja að þetta er fallegasta sýning sem Halaleikhópurinn hefur sýnt. Mikið var í hana lagt og leikmynd öll til fyrirmyndar. Næsta mál á dagskrá á þessum vettvangi er að halda aðalfund og er undirbúningur hanns hafinn.
Hjá okkur hjónakornunum hefur svo sem ekkert nýtt verið að gerast þannig að það er ekki frá miklu að segja. Kíktum uppeftir í dag en það var ekki auðvelt að komast að húsinu vegna malbikunarframkvæmda. Svona utanfrá að sjá var ekki mikil breyting. Ég býst við að fara uppeftir á þriðjudag en þá ætla ég að ræða við byggingarstjóra varðandi praktíst atriði og fl. nánari fréttir af gangi mála síðar.
Hér er allt að fyllast af kössum en það er byrjað að pakka niður hinu og þessu dóti, sem við komumst af án. Kassar undir rúmi, inni í búri, uppá hillu og hér og þar og jafnvel fyrir líka. Það er spurning hvort ekki verður að fara að grípa til þess að fleygja líka til þess að vera ekki að flytja með allt of mikið drasl.

19 apríl 2005

Drífa sig á sýningu

Þessir dagar núna eru hver öðrum líkir - fátt spennandi gerist. Sigga er óðum að jafna sig en þetta kemur samt hægt. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér í vinnu og útlit fyrir að svo verði áfram næstu daga.
Við erum búinn að ganga frá öllum greiðslum varðandi íbúðina í Mosó þannig að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því meira.
Ekki eru nema tvær sýningar eftir hjá Halanum og uppselt á þá fyrri. Þau ykkar sem eigið eftir að sjá sýninguna drífa sig á sunnudag.

18 apríl 2005

Róleg helgi

Þetta er búinn að vera róleg helgi, var reyndar að vinna laugardag í tæpa 5 tíma en annars hefur lífinu verið tekið með ró. Meira að segja var ekkert Halastúss á manni þessa helgi. Sigga er smá saman að jafna sig en það kemur hægt. Núna eftir helgina verður farið í það að ganga endanlega frá húsnæðismálum. Það er eins og þungu fargi sé af mér og okkur létt.

14 apríl 2005

Kella mín kominn heim aftur

Uppskurðurinn hjá Siggu gekk mjög vel og er hún kominn heim. Hún er töluvert slöpp ennþá og tekur einhverja daga fyrir hana að jafna sig, en vonandi gengur það vel. Annars er allt við það sama.

11 apríl 2005

Fín helgi

Það er orðið nokkuð síðan ég bloggaði síðast. Það hefur svosem ekki mikið merkilegt gerst. Það var sýning hjá Halanum í gær, sem tókst mjög vel. Ég þurfti að leysa af hljóðmann, og nafni minn Stefánsson leysti mig af sem ljósamann - og tókst bara mjög vel. Við hjónakornin skruppum í sveitina í gær og ég varð mjög hissa þegar ég sá að einn var byrjaður að mæla upp fyrir gardínum hjá sér. Við keyrðum einn hring í kringum húsið og þegar við komum hringin þá voru rúllugardínur komnar upp. Já það er greinilega byrjað að flytja inn í hálfkarað hús. Okkur Siggu liggur nú ekki svona mikið á að flytja en aðstæður fólks eru greinilega mjög misjafnar.
Það er byrjað að spá og spekulera í nýjum bíl en hvort af því verður er svo annað mál. Mér finnst allt í lagi að keyra á u.þ.b. 10 ára gömlum bíl í toppstandi. Betri helmingurinn er ekki sammála. Talandi um hana þá fór hún í morgun uppá spítala í smá uppskurð en kemur væntanlega heim á morgun eða miðvikudag. Hún var reyndar frekar kvíðinn fyrir þessu eins og hún hefur greint frá sjálf. Nánari fréttir síðar.

07 apríl 2005

Það er munur á ljósi og hljóði

Mikið var nú gaman að heyra það að "sumir" komu heilir á húfi frá Kúbu og skemmtu sér vel. Mikið andskoti hefði ég viljað vera þar líka. Það er nú önnur saga. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að frétta og ekkert að gerast í húsnæðismálum eins og er. Ég fer að verða svolítið óþolinmóður, þ.e.a.s. ég vil fara að ganga endanlega frá mínu. Það þýðir kannski ekki að láta svona, þetta tekur bara tíma og bankarnir eru ekkert að flýta sér.
Það hefur svo sem ekkert merkilegt gerst í dag (6) æfing hjá hljómsveitinni (SJER) og Halanum líka, ég reyndar var að æfa leikhljóðin og fékk annan til að taka ljósin vegna þess að hljóðmaðurinn þarf að vera laus við um helgina. Ég ætla að reyna að sjá um hans verk, hvort það tekst skammlaust skal ósagt látið. Það verður bara að taka viljan fyrir verkið.

04 apríl 2005

Ekkert gert

Þessi helgi var mest róleg. Það var einhver andsk... lumbra í mér svo við gerðum bókstaflega ekkert um helgina. Því er ekkert til að skrifa um.