20 júní 2007

Allt í föstum skorðum

Síðan hér var eitthvað skrifað síðast hefur fátt merkilegt gerst. Tilveran er nokkuð í föstum skorðum. Um síðustu helgi skruppum við Sigga í Krikan og áttum þar notalega stund með fleirum Sjálfsbjargarfélögum. Staðurinn hafði verið opnaður formlega helgina áður sem reyndar er óvenju seint. Ég geri fastlega ráð fyrir því að vera þar eitthvað um næstu helgi líka.
Nú er maður byrjaður að skjóta á fullu utanhúss svo maður verði sér ekki til skammar í Þýskalandstúrnum sem fyrirhugað er að fara þann 17. ágúst n.k. ekki dugar að koma heim með öngulinn í rassinum.

08 júní 2007

Út að viðra sig

Það er svo sem ekkert nýtt að frétta héðan frá okkur. Veðrið er orðið þess virði að fara út og við dustuðum rykið af skutlunum í gær í fyrsta skipti þetta árið. Ekki var farið mjög langt að þessu sinni heldur var frekar verið að kanna hvort þær væru ekki í lagi.
Ég var að vafra á netinu áðan og rakst þá á norska síðu sem heitir "Engar hindranir" hvet alla til að skoða en þarna eru aðgengismál skoðuð út frá ýmsum sjónarhornum. Það væri óskandi að hið nýja Félags og tryggingamálaráðuneyti okkar Íslendinga færi útí svona átak eins og norsararnir.