26 mars 2006

Dagur tvö á Íslandsmóti

Eins og ég skrifaði um í gær, þá tók ég þátt í fyrsta skipti í mörg ár í Íslandsmóti ÍF í bogfimi, sem keppandi. Ég hef verið dómari og mótstjóri á þessu móti í fjölda ára. Jæja, ekki var árangurinn til að hrópa húrra fyrir frekar en í gær. Á tímabili var úthaldið alveg að bila, en þá var bara að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Maður verður víst í þetta skiptið að taka viljann fyrir verkið. Nú þýðir ekkert annað en að bretta upp ermarnar og fara að æfa almennilega og skipulega. Ekki orð um þetta meir, en úrslitin má sjá á Íslenska bogfimivefnum .
Annars bara fínn dagur eða þannig.

25 mars 2006

Ekki mótstjóri á Íslandsmóti heldur keppandi

Ég hugsaði með mér áðan, "hvurn andsk.... er ég að gera" þegar ég var í fyrsta skipti í ein 10 ár keppandi á Íslandsmóti ÍF í bogfimi. Það var allt í skralli hjá mér sigtið á boganum var úr lagi og allt gekk á afturfótunum. Þegar nokkuð var liðið á mótið náði ég að koma sigtinu í lag og þá fór stigatalan strax uppá við. Vonandi verður árangurinn á morgun betri.
Það var nokkuð undarlegt að vera staddur á miðri skotlínunni, en félagar mínir hvöttu mig áfram. Ég var nokkuð hræddur um að ég myndi bila á úthaldinu, en þetta gekk allt eins og í sögu.
Þessi dagur hefur samt verið andsk.. erfiðari en ég fór að vinna snemma í morgun og fór svo beint í keppnina á mótinu og það er ekki góð blanda.
Ísleifur og Jón Heiðar stóðu sig vel sem mótstjórar og skotsjórar, ég er greinilega ekki ómissandi.

23 mars 2006

Erfið vika

Þessi vika er búinn að vera heldur leiðinleg, ég hef verið svoleiðis að drepast í fótum, þannig að ég hef varla getað gengið. Þetta gengur náttúrulega ekki lengur, var í morgun á heilsugæslunni og ræddi þar við lækni. Fór þar fram á að alsherjar rannsókn yrði gerð því þessir andsk.... verkir eru alltaf að ágerast.
Við notuðum síðastliðna helgi til að kynnast nýja bílnum svolítið betur fórum í góðan bíltúr á slóðir sem ég hef ekki farið nokkuð lengi.

15 mars 2006

Nýji bíllin kominn

Jæja, þá er maður kominn á nýja bílinn tveim dögum fyrr en áætlað var. Við fyrstu kynni er ég bara mjög lukkulegur með kaupin. Viðbrigðin núna eru ekki eins mikil og síðast þegar ég fékk gamla bílinn, en þá fór ég af bíl sem var með 1200 cc vél í bíl með 2000 cc vél fyrir utan stærðina á sjálfum bílnum. Mér fannst ég vera eins og "krækiber í helvíti".
Sigga er búin að vera að drepast út af þessu ristil vandamáli sínu, og þetta er að gerast ansi oft núna að hún liggur hreinlega í kvalaköstum heilu og hálfu dagana. Þetta er farið að fara illa með sálartetrið í henni hreint út sagt. Ef við hefðum ekki tengdamömmu við hliðina á okkur veit ég svei mér ekki hvað maður hefði getað gert. Alla vega hefði ég verið meira frá vinnu vegna þessa ástands á kellu minni.

13 mars 2006

Viðburðarík helgi

Þetta er búið að vera viðburðarík helgi, ég þurfti að leysa leikara í Halaleikhópnum af vegna forfalla. Á fimmtudaginn var vorum við félagarnir í SJER að æfa í mestu makindum þegar leikstjóri sýningarinnar hjá Halanum kom að máli við mig og spurði "hvort ég gæti hjálpað sér". "Með hvað" spurði ég. "Leysa hann Örn af en hann veiktist" sagði hann. Eftir smá fortölur samþykkti ég þetta þar sem ég vissi að "rullan" var ekki stór. Mér var síðan dempt á sviðið daginn eftir á generalprufu þar sem ég stóð og bullaði eitthvað að mér fannst, en meiningin var víst nokkuð rétt. Daginn eftir var síðan frumsýning og gekk hún í alla staði vel, og ég held að textinn hjá mér hafi verið nokkuð réttur. Ég ætla að skella mér fljótlega á sýningu og fá að njóta þess að hlæja svolítið en stykkið er mein fyndið.

08 mars 2006

Nýr bíll á leiðinni


Þá erum við hjónakornin búinn að festa kaup á nýjum bíl. Afhending verður fimmtudaginn 16. mars.
Ég bætti við nýrri krækju hér á síðuna en þetta er góð lesning fyrir alla sem vilja kynna sér aðgengismál.

03 mars 2006

Af bíltíkum og þess háttar dóti

Nú er ég að hugsa um að leggjast í bílapælingar. Bílgarmurinn minn er að verða 9 ára gamall og stendur sig bara fjári vel, en það fer að verða tími á að fara að endurnýja. Þá kemur kannski að aðalvandamálinu. Bíll sem hentar mér, hentar kannski ekki kellu minni, hann má til dæmis ekki vera of lágur þá kemst hún ekki út hjálparlaust og ekki má hann vera og hár, því þá kemst ég ekki inní hann. Mig langar í einn svona en kannski það séu óþarfa flottheit. Jeppadellan hefur aldrei verið langt undan, en ég held að ég láti það vera, alltaf verið skynsamur drengur.