26 febrúar 2006

Þokkalegur árangur

Í gær tók ég þátt í innanfélagsmóti ÍFR í bogfimi og miðað við hversu lítið ég hef æft held ég að árangurinn hafi bara verið nokkuð viðunandi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég keppi með Compound boga og var það alveg nýtt fyrir mér. Undirbúningur fyrir Íslandsmót er í fullum gangi en það verður helgina 25 og 26 mars. Hvort ég keppi þar eða verð mótstjóri verður tíminn bara að leiða í ljós. Mig langar óneitanlega að keppa einu sinni fyrst maður er byrjaður að æfa aftur.
Af okkur hér er hins vegar allt gott að frétta Sigga er öll að koma til svo vonandi er þetta stífluvandamál hennar búið í bili.

22 febrúar 2006

Veikindastand á okkur

Það er búið að vera óttalegt veikindastand á okkur hjónakornunum, Sigga búinn að vera að "drepast" frá því á fimmtudag og er ekki enn orðin góð. Það er þetta sama gamla sem hrjáir hana sem sagt magaverkur. Ég náði mér í ælupest líka en það stóð stutt, hef samt verið heim hjá Siggu henni til halds og trausts þangað til í dag.
Nú er orðið mál að fara koma sér út úr þessu veikindastandi öllusaman, en vonandi nær Sigga sér útúr þessu eins og áður. Hún verður bara að passa sig í mataræði og þ.h.
Ekki er nú frá neinu markverðu öðru að segja, ég nenni ekki að fara að blaðra um heitustu dægurmálin núna og ekki er ég að tapa á fjárfestingum eins og sumir hafa eflaust gert í gær, kannski það sé komið allt í lag núna hef ekki heyrt neinar fréttir enn. Svo mörg voru þau orð.

15 febrúar 2006

Á ég að nenna að fara?

Þessir dagar núna eru hverjum öðrum líkir og því ekki mikið til að skrifa um. Svo er líka hálfgerð gúrkutíð finnst mér þessa dagana.
Um næstu helgi verðum við hjónakornin á árshátíð TR en við höfum verið frekar löt við að fara á undanförnum árum.
Það er að brjótast um í mér hvort ég á að nenna að standa í því að mæta á félagsfund hjá ónefndum stjórmálaflokki í kvöld - svei mér þá ég held að ég nenni ekki að fara. Hvurslags vitleysa er þetta drengur, þú getur ekki haft áhrif nema þú mætir og hana nú. Þessi síðasta fullyrðing dundi á mér hérna í eina tíð þegar ég sýndi letitilburði eins og núna. Það er vissara að vera samkvæmur sjálfum sér og fara því alltaf hef ég verið að brýna fyrir öðrum að sitja ekki hjá heldur taka þátt. Það er víst eina leiðin til að geta breytt einhverju í þessu samfélagi okkar. (Dj.... er maður góður núna ;-).

12 febrúar 2006

Kominn að austan

Eins og minnst var á í síðustu færslu þá hef ég verið austur á fjörðum um helgina. Upphaflega stóð til að vera aðeins föstudag og laugardag en þar sem þorrablótið, sem ég ætlaði að vera á á laugardeginum var blásið af þá framlegdi ég dvöl mína fyrir austan. Hvað var ég svo að gera þar? jú smá námskeið fyrir umboðsmenn TR sem haldið var hjá FNA.
Þetta er hefur verið virkilega góð helgi og ég naut þess að vera fyrir austan, í góðum félagsskap systurs og mágs. Því miður gleymdi aulinn ég myndavélinni og missti af skoti ævinnar þar sem sólin var að setjast við Snæfellið.

06 febrúar 2006

Latur við að skrifa


Mikið hefur maður verið latur við að skrifa undanfarið það er ekki það að ekkert hafi gerst, það hefur bara ekkert merkilegt verið að gerast hjá mér. Ekki nenni ég að fara að tína upp umræðuna um vandræðin sem "danskurinn" er búinn að koma sér í. Þar hefur margt mis gáfulegt komið fram. Undir næstu helgi þarf ég að leggja land undir fót, þarf að skreppa austur á Egilsstaði, vegna vinnunar en fer svo heim aftur daginn eftir. Hefði alveg getað hugsað mér að stoppa aðeins lengur en þarf að vera á Þorrablóti þann 11. Það verður eflaust hin besta skemmtun eins og hingað til.
Í gær þá hittust Vegmóðs félagar heima hjá okkur, en það er einn elsti gönguklúbbur landsins gæti ég trúað - stofnaður 1968. Samanstendur hann af ættingjum konunnar minnar. Þau minntust einhverntíma á að þau hefðu þótt skrýtinn þegar þau byrjuðu á þessu. Við Sigga höfum ekki oft skellt okkur með en gerðum það í rigningunni í gær. Mér varð hugsað til þess að betur hefði nú verið að fresta göngunni um eins og klukkutíma þá hefði maður ekki orðið svona fjári blautur. Það er samt enginn verri þótt hann vökni.