25 janúar 2008

Pólitík er bara fyrir hunda

Eftir lætin í borgarpólitíkinni síðustu daga er ég nú bara feginn að hafa flutt úr Reykjavík. Þvílík hringavitleysa sem þetta er búið að vera. Fyrir mörgum árum heyrði ég haft eftir þjóðþekktum manni að "pólitík væri bara fyrir hunda" og má hver og einn skilja það eins og hann vill. Mér hefur alltaf fundist þessi setning yndislega tvíræð. Hvort þetta var svo haft eftir honum er annað mál en mér var alla vega sagt það.

18 janúar 2008

Hvað er að þegar ekkert er að og allt er í lagi


Hvað í andsk… á maður að gera þegar allt er í lagi og ekkert er að.
Mér datt bara si svona í hug að vitna í orð pabba gamla en hann sagði þetta stundum. Það duttu stundum út úr honum ýmis gullkorn. Fjandakornið ég hafði samt viljað hafa yfirlit yfir þær vísur sem honum datt í hug. Hann gerði allt of lítið af þessu eða hélt því leyndu. Það má til sanns vegar færa að hann talaði ekki mikið um sjálfan sig. Jeppinn hanns verður mér alltaf minnstæður en hann var kominn vel til ára sinna þegar ég man fyrst eftir jeppanum.
Pabbi gamli var kanski ekki þessi dæmigerði jeppadellukall, sem við gerum okkur hugarlund í dag. Hann var samt ásamt félögum sínum var einn af þeim fyrstu sem fór t.d. í Landmannalaugar á jeppa held að hann og félagar hafi verið númer 2 í röðinni í því að komast þangað.
Ég var á fundi um daginn í Kiwanisklúbbum Geysi og þar var maður nokkur (fyrirlesari á fundinum), sem var að fjalla um jeppamennsku nútímans. Þá greindi ég honum frá þessari ferð foreldra minna og félaga þeirra. Hann varð allur uppveðraður og vildi endilega fá greinagóða frásögn af þessari ferð. Ég held að mamma sé orðin ein til frásagnar.
Þetta fóru þau á Willys árgerð 1942 og geri menn betur í dag. Þetta er efni sem ég þarf að spyrja mömmu betur út í einhverntíma þegar okkur gefst tími til.
Ég held að þessi vísa eftir pabba hafi orðið til í Landmannalaugaferðinni sem farin var ´47 eða ´48.
Hóf sig í brekkur býsna snar
brúnum að lokum náði,
hjeppinn og kaldar kvíslarnar
klauf og í Laugum áði.

Hjeppinn=jeppinn gert til að stuðla rétt
Félagarnir voru
ps. Helgi var prentari og er ekki sá sami og alþjóð veit af. Sá er húsasmiður eins og einn af "Himnafeðgunum".
Ég vona að frekjurnar af Litlu-Brekku slektinu móðgist ekki þó að ég birti þetta.

09 janúar 2008

Erfitt að byrja rútínuna


Var með fund í Geysi í kvöld. Það er alveg makalaust hvað það er alltaf erfitt að byrja aftur eftir áramót. Annars var þetta nokkuð góður fundur og fyrirlesarinn sem fjallaði um fjalla og jeppamennsku var alveg ágætur. Ég virðist ekki ætla að losna við þennan flensuskratta. Ég á að mæta hjá lækni á föstudag og vonandi kemur eitthvað út því. Svo er það bara vinnan á morgun, setja sig í gírinn og góða skapið. Bjargar því að það er orðið stutt í helgina.

06 janúar 2008

Þrettándinn

Þetta er búinn að vera notalegur þrettándi. Dagurinn var tekin í afslöppun. Þrettándabrennan hér í bænum er alltaf jafn glæsileg og flugeldasýning Kyndils var hreint stórkostleg. Magga systir og manna kíktu hér við hjá okkur og komu með á brennuna. Sigga fór að brennu lokinni í þrettándaveislu hér í bænum en mamma og Magga komu með mér heim þar sem ég bauð uppá vöflur og kaffi.

05 janúar 2008

Áttræðis afmæli


Hann "tengdapabbi" Geir Guðlaugur Jónsson hefði orðið 80 ára í dag hefði hann lifað. Ég og Sigga, ásamt tengdó og Dolla, ætlum að halda uppá þetta í kvöld með því að fara út að borða.
Reyndar kynntist ég honum aldrei sá hann þó tvívegis. Þetta var töluvert áður en ég kynntist Siggu. 
Afmælisveislan heppnaðist mjög vel, en við vorum á Madonna við Rauðarárstíg, mæli með matnum þar.

03 janúar 2008

Ligg í flensu

Það byrjar ekki vel hjá manni nýja árið, lagðist og ligg enn í flensu síðan á laugardag 30. des. Áramótin fóru fyrir lítið. Vonandi fer þetta nú að rjátlast af manni hvað úr hverju.
ps. gat ekki annað en glott áðan er ég sá fréttina um að Moggabloggið hefði orðið fyrir árás. Voru einhverjir fleiri en ég búnir að fá nóg af bullinu þar? Segi nú bara svona en svona árásir eins og blog.is var fyrir eru ekkert grín.